Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Blaðsíða 163
162
forsendu beinlínis krafizt þess, að útgáfunni [yrði] haldið áfram“ (154).
Skýringarinnar á þessum áhuga á ritinu er skammt að leita, segir Einar
Bragi: „Birtingur er eina frjálsa menningarritið hérlendis, og slíks rits er
þörf, meðan frjáls hugsun, frjáls sköpun leitar sér leikvangs á Íslandi“ (154).
Það sem eftir lifði varð engin breyting á því viðhorfi Birtingsmanna að rit
þeirra væri „leikvangur“ fyrir frjálsa sköpun og hugsun. Birtingur átti þátt í
að kynna fyrir Íslendingum sumt af því sem var að gerast í evrópskri fram-
úrstefnu um og upp úr miðjum sjöunda áratugnum og áfram var kraftur
í menningarpólitískum skrifum. Aftur á móti dró nokkuð úr kraftinum í
markaðsstarfinu, ef hægt er að nota það orð á annað borð. Engar auglýs-
ingar eru prentaðar í Birtingi frá og með árinu 1964. Og ritstjórnin skrifar
einungis þrjá pistla næstu misserin. Í þeim er aðallega sagt frá væntanlegri
útgáfu og kvartað yfir almennum rekstraraðstæðum. Viðreisnarstjórninni
er sendur tónninn í 1.–2. hefti 1965 (99) og aftur í fjórða hefti 1966 en
þar birtist síðasti ritstjórnarpistillinn. Í honum segir að áskriftargjaldið
hafi verið óbreytt fyrir þrjá síðustu árganga en viðreisnin láti „ekki slíka
verðstöðvunarstefnu viðgangast lengur en orðið er“, verði því „efalaust að
hækka gjaldið eitthvað á næsta ári“ (48). Lágt söluverðið var enn önnur
birtingarmynd þess að ritstjórnarmenn vildu koma ritinu í hendur sem
flestra en þeir voru jafnframt þeirrar skoðunar að ekki væri hægt að leggja
mikið á þann litla hóp sem stæði „straum af útgáfukostnaði íslenzkra menn-
ingartímarita“ (1–4/1964, 154).45 Ekkert varð úr því að hækka verðið árið
1966. Það átti líklega nokkurn þátt í því, ásamt skorti á auglýsingatekjum
og tíma ritstjóra til að sinna ritinu, að það var lagt niður árið 1968.46
45 Á öðrum stað segir Einar Bragi að sér reiknist til „við lauslega áætlun, að við fjór-
menningar sem verið höfum í ritstjórn hans [Birtings] frá upphafi höfum lagt með
honum í ólaunuðum rit- og ritstjórnarstörfum tvær milljónir króna hið minnsta, og
er þá ótalið það sem aðrir hafa gefið, svo að Birtingur hefði vissulega getað orðið
nokkuð dýr, ef hinir allt of fáu kaupendur hefðu orðið að greiða hann fullu verði“
(1.–3./1966, 91).
46 Í viðtali tæpum tuttugu árum eftir að Birtingur var lagður niður leggur Einar Bragi
áherslu á að það hafi orðið ritinu að aldurtila að ritnefndarmenn hafi verið ofhlaðnir
störfum og ekki getað rækt það eins og skyldi. Þeir hafi því heldur kosið að hætta
með fullri reisn en láta ritinu hraka. „Kannski vonuðum við líka að nýir menn tækju
upp merkið, og hver veit nema það gerist einn góðan veðurdag?“ bætir Einar Bragi
við. Sjá Páll Valsson, „Ljóðrænn titringur í nýrri kynslóð“, Þjóðviljinn 17. nóvember
1985, bls. 8.
ÞRÖSTUR HELGASON