Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Síða 176
175
ekki eingöngu fengist við að ryðja nýrri fagurfræði braut heldur og glímt
við spurningar um nýja stöðu Íslendinga í heiminum sem sjálfstæðrar
þjóðar. Skrif í Birtingi litast að minnsta kosti af því að íslenska þjóðríkið
er ungt og að verið er að skilgreina eða móta menningu þess og sjálfs-
mynd. Hafa verður í huga að þrátt fyrir nýfengið frelsi hafði blossað upp
ný og ekki síður hörð deila um sjálfstæði þjóðarinnar í kjölfar inngöngu
Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949 og undirritun varnarsamnings
við Bandaríkin tveimur árum seinna. Með honum má segja að kaldastríðið
hafi byrjað fyrir alvöru hér á landi. Þetta er í það minnsta hluti skýring-
arinnar á því að þjóðernisleg og pólitísk orðræða er áberandi í tímarit-
inu þar sem bæði er rætt um stjórnmálalegt og menningarlegt sjálfstæði
þjóðarinnar. Hugmyndafræðileg róttækni, sem oft er tengd módernískum
tímaritum, beinist því ekki aðeins að hinum hefðbundnu baráttumálum
vinstri og hægri manna hjá Birtingshópnum heldur að hugmyndum um
hvað það þýði að vera Íslendingur og hvað íslensk menning eigi að vera.
Opið rými
Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að Birtingi var ætlað að ná
til breiðs hóps almennra lesenda en um leið átti hann að vera opinn og
óháður vettvangur fyrir listir og listumræðu. Það er þó einkum tvennt sem
gerði tímaritið að þeim mikilvæga miðli sem raun ber vitni. Annars vegar
var Birtingur vettvangur fyrir innflutning og úrvinnslu hugmynda og hins
vegar bauð hann upp á líflega samræðu og skörun á milli ólíkra listgreina
og -forma.
Birtingsmenn litu á menninguna sem pólitískt viðfangsefni. Það átti
jafnt við um mótun menningarinnar, eignarhaldið á henni og áhrif hennar
á það hvernig þjóðir og hópar innan þeirra væru skilgreindir. Þetta þrennt
hefur verið sagt helsta framlag módernismans til pólitískrar umræðu á
alþjóðlega vísu.75 Birtingur var mikilvægur vettvangur fyrir mótun og inn-
flutning á hugmyndum um það hvernig nútímaleg, sjálfstæð menningar-
þjóð ætti að vera. Að stórum hluta átti þetta sér stað með þýðingum og
aðlögunum á erlendum hugmyndum, bókmenntum, listum, stofnunum,
tímaritaformum og þannig mætti áfram telja. Í Birtingi má sjá hvernig
unnið er að því að semja þjóðina að nýjum veruleika, nýju hlutverki. En
75 Sara Blair, „Modernism and the politics of culture“, The Cambridge Companion
to Modernism, ritstj. Michael Levinson, Cambridge, New york o. v.: Cambridge
University Press, 1999, bls. 157–173, hér bls. 158.
MÓDERNÍSKA TÍMARITIÐ BIRTINGUR