Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 178
177
auglýsingum, eftirprentunum af ljósmyndum, málverkum, grafíkverkum,
hámenningarlegu efni jafnt sem lágmenningarlegu, auk þess sem prentlistin
sjálf er notuð til að skapa ýmiss konar prenttákn, fleti, rými, aðgreiningu eða
skörun á síðunum. Tímaritunum mætti líkja við þau frumlegu klippiverk,
hvort heldur er í rými (fr. collage) eða í tíma (sem myndfléttur, fr. montage),
sem kúbískir listamenn og fleiri framúrstefnuhópar í byrjun tuttugustu aldar
tóku að þróa.
Elena Lamberti hefur bent á að slíkar tilraunir með form og efni voru til
þess gerðar að fanga áhrif rafvæðingarinnar og nýrra miðla hennar á mann-
inn. Rafvæddir miðlar, einkum kvikmyndin, hafi skapað manninum nýtt
hljómrænt (e. acoustic) rými, gjörólíkt hinu sjónræna og línulega (e. linear)
rými prentsins. Orðið hafi færsla frá línulegri hugsun bókarinnar, þar sem eitt
tók við af öðru í röklegri samfellu, til afstæðari, brotakenndari og samsett-
ari skynjunar – rafvæðingin hafi gert öll skynfæri mannsins jafn virk. Þessari
samsettu skynjun hafi James Joyce reynt að lýsa með ólínulegri, óröklegri og
brotakenndri frásögn í Ódysseifi. Kvikmyndin hafi ef til vill verið það listform
sem tókst best að ná utan um þetta nýja hugsunarkerfi um og eftir aldamót-
in 1900 en dagblöðin og tímaritin hafi einnig endurspeglað það. Alla þessa
miðla einkenndi ákveðið markaleysi í rúmi og tíma sem jafnframt einkenndi
hið nýja umhverfi listanna og þær sjálfar.78
Þetta er ein skýring á því hvers vegna tímaritið varð svo mikilvægur
miðill í tilurð og þróun módernískrar listar og fagurfræði. Í áðurnefndri
grein bendir Ann Ardis til dæmis á hvernig móderníska tímaritið varð
að vettvangi endurmats á hefðbundnum andstæðum, svo sem fagurfræði
78 Elena Lamberti, „From Linear to Acoustic Space“, Modernism, 1. b., bls. 431–448.
Lamberti byggir grein sína að stórum hluta á kenningum kanadíska bókmennta-
og miðlafræðingsins, Marshalls McLuhan, sem hélt því fram að prentið hefði
einangrað sjónina í skynjun mannsins en rafvæðingin hefði aftur gert öll skynfæri
mannsins jafn virk, líkt og þau hefðu verið á tímum ættbálkasamfélaga. Lamberti
vitnar meðal annars til þessarar forvitnilegu útleggingar McLuhans á ljóðinu „Un
coup de Dés“ (Teningnum kastað) eftir franska skáldið Stéphane Mallarmé: „[…]
það var Mallarmé sem benti á að lærdómur blaðanna gæti orðið leiðarljós nýrrar
ópersónulegrar ljóðlistar þar sem hlutir væru frekar lagðir til og gefnir í skyn en
fullyrtir. Hann sá að hin umfangsmikla fréttamennska nútímans og vélræn fjölda-
framleiðsla skilaboða útilokaði einstaklingsbundinn stíl. Listamaðurinn þyrfti að
nálgast verkefni sitt með nýjum hætti og hina nýju miðla með nákvæmri og fínlegri
stillingu á sambandinu á milli orða, hluta og atburða. Verkefni hans var ekki lengur
sjálfstjáning, heldur það að leysa úr læðingi lífið í hlutunum“ (bls. 440). Klausan
sem hér er þýdd er úr safni bókmenntagreina McLuhans, The Interior Landscape.
The Literary Criticism of Marshall McLuhan, sem kom út árið 1969.
MÓDERNÍSKA TÍMARITIÐ BIRTINGUR