Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 16
10
VÉSTEINN LÚÐVÍKSSON
SKÍRNIR
legt, eitthvað sem kemur ekki alltof mikið við okkur. Umfram allt
látum við kröfu hans um sjálfsafneitun sem vind um eyrun þjóta.
Við viljum ekki vita neitt alltof mikið af því sem í okkur býr. Við
viljum hafa það gott. Við viljum lifa í öryggi. Við viljum vera við
sjálf, þ. e. lifa samkvæmt kjörorðinu Eg-Mitt. Við viljum m. ö. o.
bjarga lífinu, okkar takmarkaða lífi í eigin sjálfi, en ekki týna því til
að finna annað líf og meira. Og þó að okkur gruni, já jafnvel þótt
við séum sannfærð um að líf okkar í eigin sjálfi sé smávægilegt hjá
hinu, þá viljum við samt ekki sleppa því. Bæði erum við ófús að
sleppa því sem við teljum okkur þekkja, fyrir eitthvað sem við
þekkjum ekki, og svo hitt, að meðvitað og ómeðvitað óar okkur
við þeim sársauka sem raunveruleg sjálfsafneitun hefur í för með
sér. Við þetta bætist svo kannski það, að við kunnum ekki til verka,
vitum ekki hvernig við eigum að fara að þessu. Við höldum því
áfram að malla í smálífi okkar og sjálfsupphafningu, hvort sem við
horfumst í augu við það og þar með kjarkleysi okkar og vantrú, eða
við ímyndum okkur að krafa meistarans um kross og sjálfsafneitun
eigi ekki við um okkur, jafnvel að við höfum á einhvern óskil-
greindan hátt gengið í gegnum þetta allt saman og séum orðin há-
heilög eða því sem næst, eða þá að Kristur hafi gert þetta fyrir okk-
ur í eitt skipti fyrir öll.
En þarf sjálfsafneitun að vera sársaukafull? Er ekki hægt að
sleppa frá þessu án þess að finna svo mikið til?
Til að geta afneitað einhverju í raun og sannleik þurfum við að
þekkja það. Til að geta afneitað eigin sjálfi þurfum við að kynnast
því. Stundum teljum við okkur trú um að við þekkjum það. En það
er blekking. í fylgsnum hugans leynist ótal margt sem við vitum
ekkert af, og viljum ekkert vita af. Það sjálf sem við höldum að sé
okkar er í flestum tilfellum aðeins misjafnlega þægilegt yfirborð,
líkt og falleg gríma sem við höfum gengið með svo lengi að hún er
orðin andlitinu samgróin.
Fyrsta skrefið til sjálfsafneitunar er að taka grímuna ofan. Og
það eitt er þjáningarfullt, ekki síst ef sjálf okkar er vanþroskað og
innsæið lítið. Það er sárt að sjá og finna að sjálfsímyndin stenst
ekki, að í raun höfum við alla tíð lifað í ranghugmyndum varðandi
eigið ágæti. Það sem áður virtist styrkur, hógværð og gæska, reyn-
ist e. t. v. ekki mikið meira en vel heppnuð tilraun til að breiða yfir