Skírnir - 01.04.1987, Page 68
62
GUÐNI ELISSON
SKIRNIR
unnar. Allt ber að sama brunni: Vilji og eðli snillingsins er annað en
fjöldans. Vegna þessa mótbyrs verður ofurmennið einvörðungu að
treysta á sjálft sig: Það getur aðeins trúað á eigin vilja, á sinn eigin
mátt og megin og getur ekkert þegið frá öðrum. Eðli þess og kring-
umstæður þvinga það til að gerast einfari og utangarðsmaður.
Allar þessar myndir má greina í ljóðum nýrómantísku skáld-
anna. Frumlega snillinginn sem enginn skilur og á þann kost einan
að halda utan, dauðþreyttur á heimsku landa sinna. Tilfinninga-
manninn, sem ólíkt flestum öðrum þolir ekki gráan ömurleika
landsins, þrengd íslensku dalanna. Sigurvegarann, væringja andans
með stórgerðan vilja og langferðahuga, sem treystir aðeins á afl eig-
in vöðva og er ákveðinn í að sigra heiminn eða farast í baráttunni.
Ránfuglinn sem svífur öllum fuglum ofar en hlýtur þó aðeins allra
gæsa smán og er oft brotinn á bak aftur af þrælasiðferði kristninnar.
Og að lokum andhetjuna sem rís gegn öllum gömlum, rótgrónum
gildum og kallar með því yfir sig ónáð virðulegra borgara.
Eftir því sem myndirnar af skáldinu og snillingnum urðu fyrir-
ferðarmeiri í ljóðum nýrómantísku skáldanna urðu samferðamenn
þeirra og umhverfi að sama skapi ómerkilegri. Ungu skáldunum
líkaði því flestum veran á Islandi illa og þau fóru alls ekki í launkofa
með það. Af þeim sökum fóru flest þeirra úr landi og héldu út í
heim. Atgervisflóttinn lýsir vel hinum nýrómantíska tíðaranda og
þeim vonum og væntingum sem skáldin báru í brjósti. Spurningin
var ekki lengur: Hvað getur þú gert fyrir land þitt? heldur: Hvað
getur land þitt gert fyrir þig? Jónas Guðlaugsson gaf svarið:
Mitt eigið land, minn innsta hljóm
þú átt í sæld og raun,
O, land sem getur gefið blóm
og gröf í skáldalaun!10
Nýrómantísku skáldin fullnægðu flest frelsisþörf sinni með því
að halda utan. En hvernig snúa málin við þeim sem eiga ekki kost
á að brjótast úr þrengslum dalanna? Hver er staða skáldkonu sem
vex upp í hinu nýrómantíska umhverfi, án allra þeirra tækifæra sem
karlmenn hafa? Hver eru viðhorf umhverfisins til hennar? Að
hvaða leyti er hún litin öðru auga? Hver er sjálfsvitund hennar og