Skírnir - 01.04.1987, Page 71
SKÍRNIR LÍF ER AÐ VAKA EN EKKI AÐ DREYMA 65
mannslífi eins og jafnaldrar hennar gerðu óáreittir. Konu sem sagt
hefði verið um : „Hún hneigðist snemma til víns, og aldrei hef ég
séð örari konu við drykkjuborð en hana, - sjálfur Bakkus var í
henni,“ hefði samtíminn litið á sem fallna konu, hversu mikilli
skáldgáfu sem hún hefði verið gædd. Konum leyfðist ekkert
bóhemlíf, sjálfstæði listakonu leit samfélagið ekki hýru auga. Gott
dæmi um þessa þröngsýni eru tilraunir Kate Chopin til að undir-
strika sjálfstæði sitt:
. . . löngu áður en hún byrjaði að semja sögur og senda til prentunar á ára-
tugnum 1880-1890 hélt unga konan fram sjálfstæði sínu með því að reykja
í viðurvist annarra og ganga um götur borgarinnar án fylgdar - hvort
tveggja djarflegur verknaður á þeirra tíma mælikvarða.16
Af þessum orðum má ráða að staða skáldkonunnar var allólík
hlutskipti skáldbróður hennar. Karlskáldin lýsa flest óánægju sinni
yfir áhugaleysi heimsins, skáldkonur verða fyrir beinum fjandskap
frá sama umhverfi, eða eins og Virginía Woolf kemst að orði í bók
sinni Sérherbergi: „Heimurinn sagði með hrossahlátri: Skrifa? Til
hvers ættir þú að vera að skrifa?“17
Þar sem Nietzsche er faðir ofurmennisins, ef þannig má að orði
komast, og einn af frumkvöðlum þeirra hugmynda sem nýróman-
tíkin nærðist á, er athyglisvert að sjá afstöðu hans til kvenrithöf-
unda og skáldverka þeirra. Hún er augljós. I bók sinni Jenseits von
Gut und Böse kemst hann meðal annars svo að orði:
Það kemur upp um eðlislæga spillingu - burtséð frá því að það ber vott
um lélegan smekk - þegar einhver kona skírskotar til Madame Roland, eða
Madame de Staél, eða Monsieur George Sand, eins og með því sannist
eitthvað sem er konunni í hag. Meðal karlmanna eru konurnar þrjár kát-
broslegar, og ekkert annað - óviljandi verða þær bestu mótrök gegn frelsi
og sjálfræði kvenna.18
3.1 Þú syngur með náttúrubarnsins rödd
Af framansögðu ætti að vera ljóst að sú mynd sem dregin er upp
af Huldu sem skáldi á fátt sameiginlegt með þeim hugmyndum sem
samtíminn gerði sér um nýrómantísku karlskáldin. Henni leyfðist
ekki það frelsi sem þau nutu; til þess var hún of bundin af kynferði
Skímir - 5