Skírnir - 01.04.1987, Page 84
78
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
Sömu hugsunar gætir í ljóðinu „Hauknum“ en þar segir hún að
ljóðfugl hennar muni fljótlega deyja nái hann ekki að fljúga til
himins.
Af framangreindu er ljóst að sjálfsvitund Huldu tengist fremur
smáfuglum en ránfuglum og hún táknar oft frelsissviptingu sína
með vængbroti, vængjaleysi eða einhverju slíku. Þó að önnur ný-
rómantísk skáld eigi til að nota líkingamál af þessu tagi62 er hér um
sérstaklega kvenlegt líkingamál að ræða eins og Ellen Moers bendir
réttilega á þegar hún segir: „Að mínu mati er fuglinn í búrinu mynd
sem á fyllilega skilið að kallast kvenleg.“63 Þótt útlöndin laði og
lokki bindur ýmislegt menn við heimaslóðirnar. I ljóðum Huldu er
það oft hjónabandið eða elskhuginn. Hulda lýsir útþránni á hefð-
bundinn máta í „Syni Islands“. Hún segir:
Oft hefur löngun mín horft að ströndum
á hlýrri, frjórri og sælli löndum,
þá lóan kvaddi hinn lága mó
og lindin tæra var byrgð með snjó.64
I flestum ljóðum Huldu er haustið tengt útþránni. Hún eykst
þegar farfuglarnir halda til hlýrri og suðrænni staða. Veturinn ýtir
undir þrána að hleypa heimdraganum en ástin heldur henni bund-
inni. í stað þess að takast á loft og halda burt sefur þrá hennar og
hún kýs að vera með unnusta sínum. I upphafi ljóðsins leit hún á sig
sem skáld en nú er hún fullkomlega óvirk.65 Hún hefur glatað sjálf-
stæði sínu og framtíð hennar er öll í hans höndum:
Þú sonur Islands, með afl í höndum
og ættarbragðið frá goðalöndum.
Mitt veika lífstrje þú vernda skalt,
jeg vona, treysti og gef þjer allt.66
Ovirkni konunnar í „Syni Islands“ kemur víðar fram í ljóðum
Huldu. Gott dæmi er „Á ferð“ en þar lýsir Hulda ungri stúlku,
draumum hennar og löngunum, útþránni. Hulda sér sjálfa sig í
stúlkunni og segist þekkja „hinn óljósa æskudraum“ hennar, frels-
isþrána. En í þessu ljóði er engin von, árroðans strönd finnst
hvergi, hversu vel sem leitað er. I ljóðinu segir: