Skírnir - 01.04.1987, Page 86
80
GUÐNI ELISSON
SKIRNIR
ljóð nýrómantískra skálda en í fullu samræmi við kröfur og dóma
umhverfisins um hlutverk konu í samfélaginu.
Konurnar í ljóðunum hér að framan hafa verið lausar við allt
framtak (a. m. k. í sjálfstæðisátt). Konan í „Syni Islands“ er fyrir-
myndarkona þjóðfélagsins. Eins og konan í „Ef þú víkingur værir“
stendur hún í blíðu og stríðu við hlið eiginmanns, hans vilji er
hennar. Hún hefur hvorki sjálfstæða hugsun né skoðun, eða ef svo
er bælir hún hana. Kvenmynd ljóðsins fellur vel að kenningum
Nietzsches sem sagði eitt sinn: „Hamingja mannsins er: „Ég vil“,
en konunnar: „Hann vill“.“70
A þennan veg er þó málum ekki farið í ljóði Huldu „Er æskan og
vonirnar kalla“. Þar kemur fram mun sjálfstæðari kona en í öðrum
ljóðum hennar. I sambúð sinni við manninn sem hún elskar er hún
frjáls einstaklingur, með sínar sérstæðu langanir og þrár. Auðvitað
vill hún að hugir þeirra falli saman, þau haldi sömu leið, því að þá
er hamingja hennar fullkomnuð, líf hennar verður „sífellt himneskt
vor“.71 En hún mun tapa ró sinni og hamingju eins og eðlilegt er ef
hugur hans snýr í aðra átt og þau hjón eða elskendur eru ekki sam-
huga. Hún segir:
Jeg myndi gráta morgun hvern
hinn missta hjarta frið
og sofin, vakin samhljóm þrá
og sætið þjer við hlið.72
Hamingja þessarar konu felst greinilega ekki í vilja manns henn-
ar þó að hún sé reiðubúin að fórna öllu fyrir ástina, jafnvel frelsinu.
Hún segir:
En óttist þú hinn æsta sæ
og ómæld stjörnu lönd,
þá brjót þú vænginn, byrgðu mig
við brjóst þitt, styrkri hönd.73
Hún er reiðubúin að limlesta sig fyrir ástina, vilji hans virðist
hennar. En hún getur ekki lifað án frelsis og því brýtur hún að lok-
um af sér fjötra hjónabandsins eða sambúðarinnar. Lokaerindið
verður óður til endurheimts frelsis. Þar segir hún: