Skírnir - 01.04.1987, Page 130
124
FRANSKT ÆVINTÝRI
SKÍRNIR
Hann tók eldspýtur, kveikti á lampanum og gekk að rúminu
þar sem kisa var komin aftur og sleikti kettlinga sína.
„Nei. Þetta gegnir engu hófi,“ sagði hann. „Þetta blygðunar-
lausa kvikindi ber enga virðingu fyrir krúnunni og hefur valið
okkar konunglegu himinsæng sem bæli fyrir kettlinga sína.
Bíddu aðeins, skömmin þín. Þú skalt fá þetta borgað.“
„Hún getur bitið þig,“ kallaði drottningin. „Kannske er þetta
villiköttur.“
„Þetta er ekkert til að hræðast, góða mín,“ sagði kóngur.
Þar með tók hann í hornin á rekkjuvoðinni og hóf hana á loft
með kisu og kettlingunum, hnýtti hornin saman, vafði svo öllu
saman innan í teppið og fleygði því út um gluggann.
„Nú förum við í hitt herbergið,“ sagði hann svo, „og eftir
þessa hefnd fáum við vonandi að sofa í friði.“
Kóngurinn svaf og við vonum að ljúfir draumar hafi gert
honum svefninn sætan. En meðan hann svaf klifraði lágvaxinn
maður upp á þakið og renndi sér niður í garðinn á festi sinni. Þar
fór hann að leita einhvers og er það var fundið lagði hann það á
bakið og hraðaði sér út á snævi þakinn veginn. Lífverðirnir
héldu sig hafa séð vofu og skildu síst hvaða hljóð þeir hefðu
heyrt og hvað það boðaði.
Þegar kóngur vaknaði morguninn eftir fór hann að hugsa um
atburði næturinnar. Þá læddist að honum grunur um að hann
kynni að hafa verið gabbaður og litli maðurinn grái kæmi þar
við sögu. Hann sendi strax eftir honum og maðurinn kom.
Hann bar rekkjuvoðina smekklega saman brotna, hneigði sig
auðmjúklega fyrir drottningunni og sagði:
„Yðar hátign veit að ég hef gert það eitt, sem kóngurinn skip-
aði. Ég vona að yðar hátign verði svo náðug að fyrirgefa mér.“
„Ég fyrirgef þér,“ sagði drottning, „að því tilskildu að við
þurfum aldrei að sjá þig framar. Annars dey ég af hræðslu við
það sem þú kynnir að finna upp á.“
„En ég fyrirgef þér ekki,“ sagði kóngur, gramur yfir því að
drottningin hafði látið álit sitt í ljósi án þess að ráðgast við herra
sinn og húsbónda. „Heyrðu nú þrjóturinn. Þú verður hengdur
að morgni annars dags nema þú stelir sjálfri drottningunni fyrir
annað kvöld.“