Skírnir - 01.04.1987, Page 173
SKÍRNIR
RITDÓMAR
167
hún hefur lagt upp úr líkamlegri og andlegri þjálfun. Þá er og forvitnilegt
að fræðast um guðspeki- og stjörnuspekiáhuga hennar. Elín vekur einnig
athygli lesandans á tengslum tónlistar við formtilraunir Gerðar, og varpar
fram þeirri spurningu, hvort ekki megi greina í verkum hennar hve mikil
stoð næmt tónlistareyra og gott tónlistaruppeldi hafi verið henni, þegar
sköpun afstrakt forma í skúlptúr eða steindum gluggum var að brjótast um
í henni.
Elín bregður upp óvenjulega nákominni mynd af ferli og glímu lista-
manns í þessari bók. Það verður að vísu einkum hin persónulega glíma sem
skilar sér. Elín á erfiðara með að lýsa þeim listræna veruleika sem Gerður
var að fást við og birtist í breytilegum verkum hennar, - samhenginu og
samhengisleysinu í list hennar, leit að formi og innihaldi, tengslum við
listastefnur eða beinum áhrifum frá einstaka listamönnum, leit hennar að
eigin andliti, hvort sem er í skúlptúrnum, glerinu eða skrautinu, stöðu
hennar í íslenskri og erlendri höggmyndagerð. Hinu raunverulega hlut-
verki hennar sem listamanns er því ekki gert skil í þessari bók. Slík úttekt
bíður fræðimanna.
Gildi bókarinnar er einnig fólgið í því safni heimilda sem þar er að finna
um hin margvíslegustu verk Gerðar, tilurð þeirra og hvar þau muni vera
niður komin. Hins vegar er myndefnið mjög af skornum skammti, og þó
ekki hafi verið ætlunin að gefa út listaverkabók um Gerði í þetta sinn, hefur
óþarflega sparlega verið gengið til verks. Elín lýsir vinnu Gerðar við ýmis
verk, og skoðunum annarra á þeim, án þess að birtar séu myndir af þeim.
Má þar nefna höggmyndina af Jóhanni Sigurjónssyni, en miklar umræður
urðu hér um hárið á skáldinu, og mörg önnur dæmi má finna, þar sem fróð-
legt hefði verið að fá myndir með textanum. Ogþær myndir, sem birtar eru
í bókinni, eru saman í örkum á nokkrum stöðum, án þess að vera í þægileg-
um tengslum við textann. Hönnun og frágangur eru því ekki í sama gæða-
flokki og texti Elínar. Hún skrifar einfaldan, skýran og nokkuð knappan
stíl, sem fellur vel að efninu, þessari átakamiklu og oft átakanlegu sögu
listamanns. Ritvillur fann ég nokkrar, einkum í erlendum staðanöfnum, og
eitthvað mun dánardægur Guðjóns Samúelssonar arkitekts hafa skolast til.
En það sem máli skiptir er að með bókinni um Gerði hefur Elínu tekist að
skrá hugtæka ævisögu myndhöggvara, sem á 30 ára ferli hvikar ekki frá
köllun sinni. Þessi ævisaga hlýtur að verða náma þeim sem síðar eiga eftir
að fjalla um list Gerðar, skoða hana og skilgreina.
Þóra Kristjánsdóttir