Skírnir - 01.04.1987, Page 176
170
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
SKIRNIR
bókarinnar, voru til þess gerð að varðveita frásögn hans af sem flestum
markverðum hlutum er hann væri heimildarmaður um. Og þess ber bókin
líka glöggan vott; Þórunn kappkostar að koma á framfæri frásögnum sem
hafa heimildargildi frá sögulegu sjónarmiði. Augljóst er þetta um félagsmál
bænda, en ekki síður í fyrri köflunum sem eru auðugir að hvers kyns þjóð-
hátta- og atvinnuháttafróðleik, og heldur Þórunn því ekki síst til haga sem
snýr að daglegu lífi og kjörum. Bókin geldur þó ekki þessa fróðleiksáhuga
með því að verða þurr eða ópersónuleg, því að Þórunn gætir vel jafnvægis,
að blanda almenna fróðleikinn með atburðalýsingum og láta líka skoðanir
Einars njóta sín og túlkun á hlutunum.
Sams konar jafnvægis er gætt í bók þeirra Gylfa og Tómasar. En hér er
svigrúmið meira; bókin öll skilar Tómasi aðeins fram um tvítugt, og er það
meira en tvöfalt rými á við frásögn Einars af sama aldursskeiði. Þannig er
ærið ráðrúm til að Tómas komi fram sem heimildarmaður um fleira en eig-
in ævi. Eru það þá tvö efnissvið sem þeir Gylfi leggja einkum rækt við.
Annars vegar frásagnir af kunnu fólki sem bjó í Grindavík eða var þar lang-
dvölum á uppvaxtarárum Tómasar. Það er Sigvaldi Kaldalóns, Eggert Stef-
ánsson, Steinn Steinarr, og ekki síst Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur;
raunar margir fleiri. Hins vegar saga byggðarlagsins, Grindavíkur, og er
þar sýnilega lagður grunnur að framhaldi í næsta bindi, en þar verður sögu-
maður kominn í fylkingarbrjóst atvinnulífs í plássinu, og má mikils af
þeirri frásögn vænta, svo vel sem hún fer af stað í þessari bók.
Tómas kveðst hafa verið forvitinn frá bernsku um sögu Grindavíkur og
rifjar hér upp glefsur úr henni, allt aftur til Landnámu. (Ekki fellst ég á þá
skýringu Tómasar á kaupmannsnafninu „Tugason" að það sé kenning um
mann „sem hugsaði ekki um annað en tugi peninga" (27); danska manns-
nafnið Tyge hlýtur að liggja hér til grundvallar.) Einnig segir hann stað-
bundnar þjóðsögur. Sérstaklega eru það þó lýsingar á sjósókn Grindvík-
inga á árum milli styrjalda sem hér hafa heimildargildi. Þar var fornlega að
staðið vegna hafnleysis. Þess vegna var byggðarlagið „í sjálfheldu" og tví-
sýnt um „sigur í baráttunni fyrir framtíð byggðarlags okkar . . . allt fram
yfir 1950“ (193). Sú barátta verður trúlega kjarninní næstabindi. Hér fellur
frásögnin með hernáminu þegar sjósókn frá Grindavík leggst af í bili.
Bæði Gylfi og Þórunn skipta bókunum í stutta kafla með áhugavekjandi
fyrirsögnum og leggja rækt við að móta hvern kafla sem læsilega heild.
Frásögn Einars fær af því öllu þyngri blæ en Tómasar að þar er meira þjapp-
að saman upplýsingum, en í bók Tómasar og Gylfa rennur frásögnin afar
liðlega - nema á stöku stað þar sem gerð er upptalningarkennd grein fyrir
fólki, einkum fjölskyldu Tómasar. Kímni nýtur sín vel hjá sögumönnun-
um báðum, einkum í atvikalýsingum hjá Tómasi en markvissum athuga-
semdum Einars. Báðir nefna til sögunnar aragrúa fólks og er bersýnilega
ljúfara að bera fólki vel söguna en illa. Það er raunar algengt einkenni á
minningaskrifum, en hér er í báðum bókum sneitt hjá þeim öfgum að hrós-
ið verði of einhæft til að hljóma alvarlega.