Skírnir - 01.04.1987, Side 191
SKÍRNIR
RITDÓMAR
185
Búendía sjá fljúgandi teppi „á þeytingi fram hjá glugga tilraunastofunnar,
sígauni sat við stjórnvölinn og ýmsir þorpskrakkar veifuðu glaðlega með
hendinni, en Jose Arcadio Búendía gaf fluginu engan gaum. ,Leyfum þeim
að líða áfram í draumi,' sagði hann. ,Flug okkar verður farsælla með vís-
indalegri tækjum en þessum rúmteppisræfli‘“ (Mál og menning, 1978, bls.
32).
Vantraust á furðuraunsæinu einkennir þó síður en svo alla sögu Einars.
A köflum tekst honum vel að þurrka burt mörk draums og vökuskynjunar
þannig að lesandi getur alls ekki verið viss á hvoru sviði hugarlífsins at-
burðir eru skynjaðir. Og þar sem eru augljósir draumar, eins og svefnflakk
Sigríðar prestfrúr (54-57), virðast þeir vera fyrirboðar þess sem á eftir að
gerast. Manni þykir ekki ósennilegt að sá draugagangur sem í sögunni er,
auk veðurdumbungsins og látlauss regnsins, sé að stórum hluta martröð
persónanna. I lok sögunnar vaknar Daníel prestur rennsveittur um nótt
eftir „martraðir fullar af fjúkandi dropum og blásandi vindum“ og „hann
sér að úti, fyrir utan gluggana, er veruleiki draumsins, martröðin eins og
ljósrit af sjálfri sér“ (234). Pessi orð kallast kannski á við fyrrgreint augna-
tillit Sigríðar er hún lítur í rúðuna og sér Daníel syndandi (71). Sér ekki
Daníel sjálfan sig í glugganum, fljótandi í martröð veruleikans? Er sagan
kannski öll eða að stórum hluta martröð hans sem hann er nú loks að vakna
frá (og sem er þá fyrirboði þess eftirmála, þess flóðs sem enn á eftir að skella
á)? Slíkar og þvílíkar spurningar kvikna vissulega við lestur sögunnar en til
að óvissa þeirra nái verulegum tökum á lesandanum verður meira að koma
til. Mér finnst til dæmis afleitt hversu lítt áhugaverð persóna Daníel er, á
köflum svolítið skopleg, stundum vorkunnarverð, en ég finn ekki í henni
uppistöðu til að gegna því meginhlutverki sem sagan vill ljá henni.
Eitt af því sem goðsagnaheimur af áður umræddu tagi gefur færi á, og
ýmsir höfundar hafa nýtt sér, er hið aukna táknvægi sem hversdagslegir
hlutir geta öðlast. Þar sem lögmál venjubundins raunsæis ráða ekki ríkjum
geta ólíklegustu hlutir rifið sig úr samhengi, líkt og þeir ætli að taka völdin
af mannfólkinu. Þessa táknrænu vídd leitast Einar stundum við að skapa í
verki sínu, en einnig hér finnst mér ég kenna tómahljóð er ég þreifa á sög-
unni. Einum kaflanum lýkur til dæmis með eftirfarandi lýsingu á stofu
presthjónanna (þetta „ekki“ í fyrstu málsgreininni hlýtur að vera á villigöt-
um):
Enda er ekki allt hér í stofunni einsog það á að vera:
Fótstigna orgelið, stofualtarið, ljósin og myndirnar.
Allt.
Já meira að segja kapalspilin.
I skugga blaðabunkans liggja þau á stofuborðinu. (61)
Þó að kaflinn sé um þögnina, þá finnst mér meira að segja vanta drama
þagnarinnar í þessa lýsingu. Eg get ekki stillt mig um að vitna hér í áður-