Skírnir - 01.04.1987, Blaðsíða 192
186
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
nefnda smásögu, „Þegar örlagavindarnir blésu“, en þar tekst Einari að
tengja hversdagsviðburð við óvenjulega reynslu, og þótt sambandið sé ekki
auðskilið skapar það dramatíska spennu. Hjónin Nikulás og Nanna eru á
leið heim í Hverfið þegar hann skrúfar niður rúðuna og kaldur gustur brýst
inn í bílinn:
Vegna hrollsins sem sáldrast finnur hann hvernig geirvörturnar
stirðna upp, stirðna upp og verða stinnar, og eitt augnablik, áður en
hann á nýjan leik nær öruggum höndum utan um stýrið og hallar sér
fram til að hækka hitann í miðstöðinni, er sem augu hans, galopin
brún augun, horfi inní annan heim. (355)
Skyndilega fá kuldagjósturinn, stýrið og ekki síst geirvörturnar aukið
táknvægi, sem virðist tengjast einhverri snöggbreytingu skynjunar. Það er
ekki auðvelt að henda reiður á röksamhengi textans en hann er ekki síður
aðkallandi fyrir vikið. Jafnframt öðlast frásögnin eitthvert líkamlegt
samband, sem mér fannst iðulega vanta í Eftirmálanrv, þar skorti sögu-
efni og persónur fyllingu og eru vofukennd. Nú má að vísu enn reyna að
réttlæta vinnubrögð Einars með því að segja að svona eigi þetta að vera,
vofublærinn fari þessari draugalegu sögu vel. En slík eftirlíkingarhugmynd
samræmist vart því magíska raunsæi sem Einar leitast við að skapa; ég tel
það til að mynda galla að afturgöngur sjómannanna sem ásækja kvenfólk í
Eftirmálanum skuli vera svona miklu dauðari en sjómennirnir sem koma í
land og fara á kvennafar í Vangjaslattinum.
Orvinnsla arfsins og frásagnargleðin
Lýsingar þeirra yfirnáttúrulegu atburða sem einkenna furðuraunsæi Einars
eru sóttar í gamlar íslenskar frásagnarhefðir og hefur Einar sjálfur lýst því
yfir að hann vilji virkja slíkan arf á nútímasviði verks síns. Jafnframt vill
hann þó forðast „opinbera" aðlögun slíks arfs, sem væri ekki annað en
staðfesting á dauða hans. I samræmi við þetta segir í Eftirmálanum að það
sé „engu líkara en bæði fornir drekar og landvættir sem orðið hafa mynt-
sláttu að bráð bylti sér djúpt oní jörðinni, veltist þar um í þúsund ára göml-
umsvefniognuggimeðspjótumhrukkóttadraumaúraugunum.. .“(18).
En hvernig er arfurinn vakinn til lífs? Yfirleitt birtist hann okkur í brota-
kenndum myndum, eins og þegar sagt er að „enn sé ekki vitað um nokkurn
þann sem séð hefur selshöfuð gægjast upp úr stofuofni eða svínsrófu dilla
sér í drullupolli...“ (206). Hér er væntanlega vísað til selshöfuðsins og sel-
hærðu nautsrófunnar í Eyrbyggju. Það mætti því kannski ætla að fyrir Ein-
ari vekti að meðhöndla íslenska arfinn á svipaðan hátt og módernistar á
borð við Eliot, J oyce og Ezra Pound tókust á við fornan menningararf. Þeir
tína til fjölda textabrota, oft af mjög ólíkum uppruna, og skeyta þeim sam-