Skírnir - 01.04.1987, Side 198
192
ÖRN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
sögunni - að kunna að þjást. Brúðan, sem tengist bernskuþjáningu Öldu,
vísar fram til tuskubangsans síðar.
Annars eru þessir fyrirboðar - og margir fleiri (t.d. nefnir Andri töluna
sjö í Þjv. 19/11 1986) - aðeins angi af stærra meiði. En það er þéttleiki
bókarinnar, ef svo mætti segja, og er þá vitnað til þess, að á þýsku heitir það
að skálda dichten, en það þýðir líka að þétta. Enda er það einkenni á góðum
skáldskap að ýmiskonar atriði orka saman að markmiði, sem verður aðeins
þannig til. Hér er aðeins hægt að grípa fáein dæmi af handahófi. Tvívegis,
þegar Alda finnur sér hafnað af elskhuganum, bjargar hún barni úr nauðum
(bls. 67 og 112). Þannig er okkur sýnt í upphafi sorgarinnar, að hún göfgi
hana en smækki ekki. Þegar Alda sér Anton fyrst, hugsar hún um hann sem
leikfang (bls. 9):
(Svekkjandi augu úr ísbláu gleri/montinn með sig í glugganum./
Dýrasti bangsi í bænum/með uppstoppað öryggi./Hugsar: Hún á
ekki fyrir mér þessi./Þér brygði nú ef manni tæmdist arfur /eða vin-
irnir efndu til samskota.)
En hann reynist verða allt annað en leikfang hennar, og þessi lýsing
gengur aftur í óhugnanlegri mynd af einsemd hennar og örvæntingu þegar
hún rogast milli landa með risastóran tuskubangsa, eina rekkjunaut sinn,
dautt flikki, sem tákn fyrir ástarsorgina sem hún dragnast með.
Sagan þéttist ennfremur við vísanir í fræg bókmenntaverk, sem stundum
koma fyrir, einkum um hverfula fegurð og ástina eftir Goethe, Villon og
Shakespeare (sonnetturnar, Anton og Kleopatra, Hamlet). Jafnframt
skerpa þessar vísanir mynd menntakonunnar Öldu.
Stíll
Stíllinn er margbreytilegur, eins og áður segir, enda mikilvægur. Þannig
segir söguhetjan okkur ekki að hún hafi orðið ástfangin af manninum sem
hún þóttist vera að leika sér að, það birtist í því að stíllinn verður ljóðrænn.
Það hefst í aðdraganda þess að hún tekur hann heim með sér, en því er lýst
í sundurleitum galgopastíl upphafsins (sbr. orðin sem ég skáletra, bls. 41):
Eg segi þér til fróðleiks í Skjólunum að bekkjarskáldið í sjötta bé hafi
komið með mér heim eftir skóla á föstudaginn. Þá hafi ég fætt hann
á lifrarpylsu og rófustöppu með súkkulaðimús í ábæti (umdeilanleg
samsetning matseðils) og að loknu kaffi þá hafi hann tekið mig
prontó einsog til var ætiast í stóra gamla rúminu þar sem ég hlýt sjálf
að vera getin.
Þetta leiðir samkvæmt áætlun til þess að þau Alda og Anton falla nú sjálf
saman í þessu rúmi. Eftir það verður stíllinn æ ljóðrænni, á næstu opnu