Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1990, Síða 231
Trúarlíf íslendinga
óbreytt ástand og annar þriðjungur hafði ekki skoðun á þessu máli. 15% vildu
að sambandið yrði endurskoðað með það fyrir augum að efla hag kirkjunnar.
Þá sem vildu slíta sambandinu eða endurskoða með hag kirkjunnar fyrir
augum er aðallega að finna meðal þeirra sem hafa mikinn áhuga á stjórn-
málum. 70% svarenda töldu biskupsembætti þjóðkirkjunnar mikilvægt fyrir
þjóðina í heild. Þetta og ýmislegt annað í þessum niðurstöðum bendir til þess
að fók hafi væntingar til þjóðkirkjunnar og leiðtoga hennar sem ekki eru af
trúarlegum toga í hefðbundnum skilningi þess orðs. Litið er á kirkjuna sem
jákvætt afl er eflir þjóðarvitund og samstöðu um verðmæti íslenskrar
menningar. I þessu sambandi var rætt um þjóðríkistrú (civil religion).
Þessi „þjóðfélagslega trú“ kemur m.a. fram í því að í huga mikils meiri hluta
landsmanna er þjóðkirkjan svo samgróin „þjóðarlíkamanum" að það væri
nánastjafn fjarlæg hugsun að segja sig úr þjóðkirkjunni og úr þjóðfélaginu. Við
þetta má bæta að e.t.v. flestir af talsmönnum kirkjunnar koma til móts við þessa
þjóðríkistrú á margvíslegan hátt. En þeir gera það oftast á öðrum forsendum,
þ.e.a.s. guðfræðilegum og líta til hins evangelíska hlutverks kirkju sinnar í
samfélaginu.
I lok II. kafla þar sem rætt var um trúarhugmyndir og trúarafstöðu var farið
nokkrum orðum um það hvort Islendingar væru kristnir. I leit að svari var
einkum stuðst við afstöðu manna til hefðbundinna, kristinna trúarhugmynda
en þess getið um leið að seint verði úr þessu máli skorið, eins og liggur í
hlutarins eðli. Engin könnun, ekkert mannanna verk fær ráðið í þann leyndar-
dóm sem fyrst verður upplýstur „á efsta degi“. Þrátt fyrir það er spurningin
áleitin. Það er ekki nema eðlilegt, þegar gerð er könnun á trúarlífi og
trúarlegum viðhorfum Islendinga, að þegar upp er staðið leiði menn hugann
að því hver sé staða kristinnar trúar meðal þjóðarinnar. Eðlilegt er að álíta að
sá efniviður, sem nú liggur fyrir, gefi margvíslegar vísbendingar um trú og
trúrækni, þótt vissulega sé fjölmargt enn á huldu og hljóti svo að verða.
Hér hafa verið leiddar líkur að því að sé tekið mið af yfirlýstum stuðningi
við kristnar trúarhugmyndir, með hliðsjón af trúrækni af fjölbreyttri gerð, þá
megi nokkuð skýrt afmarka þann hóp manna sem óhikað játar kristna trú og
reynist við athugun vera býsna samkvæmur sjálfum sér í því efni. Er um að
ræða um það bil 40% svarenda.
Þýski trúarbragðafræðingurinn Ernst Troeltsch gerði í upphafi aldarinnar
greiningu á kristnum trúfélögum þar sem hann gerir ráð fyrir þremur
megingerðum. Þær nefndi hann kirkju, sértrúarfélag, og dulhyggju (mysticism).
Kenning Troeltsch var sú, að þessar þrjár gerðir samfélags kristinna manna
ættu uppruna sinn í kjarna hins kristna boðskapar og hefðu fylgt kristninni alla
tíð. Mikilvægi hverrar um sig og afstaða þeirra innbyrðis væri með ýmsum hætti
og réðist að mestu af félags- og menningarlegum aðstæðum. Félagsfræðingar
hafa allt til þessa dags stuðst við greiningu Troeltsch, en einnig aukið við hana.
229