Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 11
Sérkenni kristindómsins
Dr. Björn átti sæti í þýðingarnefnd þeirri er vann að þýðingu Nýja
testamentisins fyrir biblíuútgáfuna 1981. Er þýðing Jóhannesarguðspjalls
að miklu leyti hans verk. Þá hefur hann einnig fengist talsvert við þýð-
ingar á guðfræðiritum.12
Dr. Björn hefur setið í fjölmörgum nefndum og gegnt margvíslegum
trúnaðarstörfum, en málefni bindindishreyfingarinnar hafa verið honum
sérstaklega hugleikin. Átti hann um árabil sæti í framkvæmdanefnd
Stórstúku íslands, var formaður Landssambandsins gegn áfengisbölinu
1956 um allmörg ár og átti sæti í stjórn Bindindisráðs kristinna safnaða
frá stofnun þess 1962-1967, og var formaður þess síðari árin.
Björn Magnússon var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði við
guðfræðideild Háskóla íslands 25. júní 1976 á 65 ára afmæli Háskóla
Islands.
Hér verður ekki gerður neins konar útdráttur úr þeirri ritgerð dr.
Björns Magnússonar sem hér birtist, en látið nægja að vísa til
meginkenningar hans um sérkenni kristindómsins. Sérkenni hans, er að
mati Björns, fyrst og fremst Jesús sjálfur. „í kristindómnum hefur
persónan, sem opinberunina flutti, mótað meir en í nokkrum öðrum
trúarbrögðum svip hins trúarlega lífs. Sérkenni kristindómsins eru
framar öllu öðru hin einstœða staðreynd: Jesús Kristur. Hann er sú mikla
forsenda, sem allar niðurstöður kristindómsins byggjast á, hvort heldur
er litið á hann sem þekkingaratriði, guðssamfélag eða siðgæðishugsjón.“
12 Af þýðingum hans má nefna Vígðir meistarar, Akureyri 1958 (433 s.) [Edouard
Schuré: Les grand initiés] og Launhelgar og lokuð félög, Rvk. 1975 (493 s.) [Efraim
Briem: Mysterier och mysterieforbund]. Hér er engan veginn um tæmandi ritaskrá dr.
Bjöms Magnússonar prófessors að ræða. Skal í því sambandi bent á Árbœkur Há-
skóla Islands og Skrár um rit háskólakennara.
9