Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 41
Sérkenni kristindómsins
oss, þá getum vér gengið enn lengra. Þá getum vér ályktað af dauða Jesú
um það, að eðli hins guðlega kærleika, eins og Jesús birtir oss hann, sé að
gefa sjálfan sig (Mk. 10,45). „Að velja þá leið sem lá til krossins er að
hugsa um það, sem Guðs er, þ.e. að starfa samkvæmt stefnu hans og sýna
í verki áhuga fyrir takmarki hans” (Moffatt, bls. 107, sbr. Mt. 16,21). En
í því birtist líka sannfæring um alveldi hins himneska föður, á áþreifan-
legri hátt, en nokkru sinni, með því, að það krafðist hinnar ýtrustu trúar
á það, að hann hefði mátt til að láta þjáningarnar snúast upp í sigur, og
ekkert vald gæti staðið þar á móti. Og það gerði einnig skiljanlegar hinar
ströngu kröfur, sem hann gerði til lærisveina sinna, um að leggja jafnvel
lífið sjálft í sölumar (Mk. 8,34), og láta ekkert standa á milli sín og Guðs
(Mk. 9,43nn). Guð er hinn heilagi, kærleiksríki faðir, og ekkert annað
má vera manninum meira virði. „Hann einn er drottinn” (Mk. 12,28nn).
2) Þróun kristilegrar guðshugmyndar
a) Þróunin
Trúarlærdómasagan er að mörgu leyti sorgarsaga. Ekki eingöngu vegna
þess, að í þeim deilum, sem háðar hafa verið um það, hvað væri hin rétta
kenning, hefur oft borið á öðru meira en kristilegum eiginleikum, heldur
jafnvel einnig í því, að í viðleitni sinni við að skýra sannindi trúarinnar,
samræma þau hugsanaheimi hverrar tíðar og skipa þeim í samstætt kerfi,
hefur oft hið upprunalega kristilega horfið í skuggann bak við heim-
spekileg, ó-kristileg eða jafnvel and-kristileg atriði, og ekki síst atriði,
sem í raun og veru eru trúnni óviðkomandi, Þetta má sjá af yfirliti því
yfir sögu kristfræðinnar, sem gefið hefur verið hér að framan. Það
kemur í ljós á nokkuð annan hátt í sögu kenninganna um Guð. Krist-
fræðin var, er stundir liðu fram, álitin höfðugrein guðfræðinnar, og að
vísu með réttu ef betur hefði verið á haldið, en eins og raunin varð olli
það því, að „allt önnur guðstrú, og mjög máttvana eða jafnvel allt önnur
hugsjón gátu aftur og aftur smeygt sér inn í kristindóminn, ef aðeins
kristfræðinni var haldið í réttu horfi á ytra borðinu” (Weinel, Theologie,
bls. 210). Það má vera, að hér sé nokkuð fastt að orði kveðið, en ofmælt
er það ekki, að guðshugmynd Krists hvarf alltaf meira og meira í skugg-
ann, eftir því sem hinar háspekilegu bollaleggingar um eðli Guðs og
eiginleika urðu yfirsterkari, og þá ekki síst í sambandi við kristfræðina
og hjálpræðiskenningarnar.
Hér verður því lengstum að ræða um þróun niður á við. Og það er
skiljanlegt. Það hástig guðsþekkingar, sem vér finnum hjá Jesú, var
ofvaxið venjulegum mönnum, og er að vísu enn. Guð varð aftur fjar-
lægari, og hið nána samlíf við hann féll aðeins í fárra hlut. „Yfirleitt eiga
menn aðeins að nálgast Guð fyrir meðalgöngu. Rétta kenningin, rétta
niðurskipunin og heilög bók eiga að vera meðalgangarar” (Harnack, Krd.
bls. 143). Síðar komu sem meðalgangarar María guðsmóðir og aðrir
dýrlingar. Þó er ekki nema hálfsögð sagan, ef aðeins er litið á þá hlið
málsins. Sú reynsla hins eilífa, algjöra föður, sem birtist í Jesú, var
39