Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 130
Bjöm Magnússon
trúarinnar og innsti kjarni allrar tilbeiðslu” (Barry, bls. 185). Trúarlífið
nærir hina siðgóðu breytni, eins og á hinn bóginn hið siðferðilega líf er
ómissandi ávöxtur trúarinnar, ef hún á að eiga það nafn skilið.
„Kristindómurinn er, eins og Benjamin Wichcote sagði, guðlegt líf, en
ekki guðleg vísindi; eða eins og Peabody kemst að orði, þegar Páll segir,
að vér göngum í trú, segir hann með því, að trúin er athöfn, en ekki
orðmælgi (a way of walking, not of talking) (Inge, Ethics, bls. 385).
Ég mun nú líta á hið siðgóða líf samkvæmt hugsjón Jesú og fram-
kvæmd kristindómsins, frá sjónarmiði einstaklingsins og félags-
heildarinnar, hvort í sínu lagi, en fyrst gefa stutt yfirlit yfir siðgæðis-
kröfur Jesú, og athuga þær nokkuð frá almennu sjónarmiði.
1. Siðgæðiskröfur Jesú
Siðgæðiskröfur Jesú birtast bæði í kenningu hans og lífi hans. Sem
kenning eru þær miklu meir áberandi þáttur í starfi hans en hin almennu
þekkingaratriði um Guð eða tilveruna, því hann flutti ákveðnar kröfur til
áheyrenda sinna um breytni þeirra, og er jafnvel svo litið á af sumum, að
þær séu aðalatriði boðskapar hans, og beri því fyrst og fremst að skoða
boðskap Krists sem siðgæðisboðskap Og í lífi hans eru kröfur hans ekki
síður augljósar, því að sjálfur lifði hann boðskap sinn öllum öðrum
fremur, og sýndi í veruleika þær hugsjónir, sem hann setti öðrum að
keppimarki. Siðakenning Jesú er ekki framsett í neinu kerfi, heldur birtast
leiftursnöggt og skýrt þær einstöku kröfur, sem aðstæður hvers
augnabliks kölluðu fram úr hinni næmu sál hans (Sbr. Weinel: Theologie,
bls. 82, Miiller, Gott, bls. 148). „Af því að hér er ekki um heimspeki-
prófessor að ræða eða sérfræðing í samstæðilegri guðfræði, heldur helgan
mann og trúboða sem var með allan huga sinn gagntekinn af hinu
trúarlega, getum vér ekki greint siðakenningar hans frá skapgerð hans
sjálfs” (Inge, Ethics, bls. 78). Hvort tveggja sprettur eins og ósjálfrátt upp
af hinu nána samlífi hans við himneska föðurinn, sem hann sótti stöðugt
til allan kraft starfs síns (sbr. Jóh. 7,16nn).
Sú skoðun hefur komið fram um siðakenningar Jesú, af hálfu þeirra,
sem leggja einhliða áherslu á heimsslitablæ kenningar hans, að siða-
kenningar hans væru ekki miðaðar við venjulegt ástand mannlífsins,
heldur giltu eingöngu fyrir þann stutta tíma, sem eftir væri til heims-
slitanna (interims-ethik, J. Weiss, Schweitzer o.fl.). Enn er það all-algeng
skoðun, að líta svo á, að siðgæðiskröfur Jesú séu margar hverjar
algjörlega óframkvæmanlegar, skýjaborgir, er aldrei verði gerðar að
veruleika á jörðu. Er gerð hefur verið grein fyrir því, hverjar
siðgæðiskröfur Jesú séu, mun hér verða vikið að þessum skoðunum, og
leitast við að svara, hvort kenning Jesú sé heldur skýjaborgir eða raunsæ
og markviss keppni að náanlegu marki, og loks sýnt fram á, hvernig í
henni felst hugsjón um nýtt líf á grundvelli hins sanna eðlis og tilgangs
mannanna.
128