Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Síða 131
Sérkenni kristindómsins
1) Kröfurnar
í siðakenningu Jesú getum vér greint þá tvo sömu meginþætti, sem
einkenndu líf hans: Hreinleika og kærleika (sbr. Hamack: Krd. bls. 125).
Allt líf hans stjórnaðist af þessum tveim megin-öflum, og siðakröfur hans
eru knúnar fram af þeim, eða verða leiddar út af þeim. Hreinleikinn
birtist sem sannindi og heilindi í allri framkomu, sem hreint hugarfar, er
birtist jafnt í siðferðilegum hreinleik sem í réttu mati og meðferð hinna
efnislegu hluta; inn á við gagnvart manninum sjálfum birtist hann sem
auðmýkt, út á við birtist hann sem hugrekki og ákveðinn vilji.
Kærleikurinn birtist sem fúsleiki til fyrirgefningar, sem þjónustusemi og
fórnfýsi (Að mestu skv. Weinel: Theologie, bls. 84nn).
a) Hreinleiki
1. „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá” (Mt. 5,8). Þessi
orð geta verið yfirskrift yfir allri siðgæðiskenningu Jesú. Hið hreina
hjarta birtist fyrst í því, að maðurinn er heill og sannur í allri framkomu
sinni. Hann á að vera sannur í orðum sínum, svo sannur, að hann þurfi
ekki að staðfesta orð sín með eiði, því síður að fara krókaleiðir til þess að
komast hjá því að sverja beint við nafn Guðs (Mt. 5,33nn). Já hans sé já,
nei hans nei (sbr. Jak. 5,12). Verk hans eiga að vera runnin upp af hreinni
þörf hjartans, en ekki af hræsni, til að sýnast fyrir öðrum (Mt. 6,1, sbr.
kapítula 23), ekki heldur til að hljóta laun fyrir þau (Lk. 14,12);
Guðsdýrkun hans, góðgerðasemi og sjáfstamning á allt að vera framið af
innri þörf, án löngunar til að láta á því bera eða hljóta hrós fyrir af
mönnum (Mt. 6,5nn, 2nn, 16nn). Maðurinn á að byggjast upp sem
heilsteyptur persónuleiki á traustum grundvelli heillar fylgdar við orð
Jesú (Mt. 7,24nn). Trúmennska yfir litlu mun leiða til þess, að hljóta
stærra hlutverk (Mt. 25,14nn, sbr. Lk. 16,10n).
2. Sannindin og heilindin í hinni ytri breytni eru afleiðing af hreinu
hugarfari. Það, sem mest á ríður, er að hugur manns sé hreinn, því að
innan frá, frá hjarta mannsins koma hinar illu hugsanir, sem eru undirrót
frillulífis, morða, ágirndar, munaðarlífis, öfundar. Þetta er það, sem
saurgar manninn (Mk. 7,21nn). Hugsun mannsins á að vera svo hrein, að
hann líti ekki á konu með girndarhug, beri ekki reiðihug eða haturs til
bróður síns, gjaldi ekki illt með illu, setji sig ekki í dómarasess yfír aðra
(Mt. 5,27n, 21nn, 38n; 7,lnn); forðist alla ágirnd, og sé reiðubúinn til að
segja skilið við efnisleg verðmæti til að geta gefið sig allan við að fylgja
Jesú (Lk. 12,15, Mk. 10,17nn, sbr. Lk. 19,8). Þar sem fjársjóður
mannsins er, þar mun og hjarta hans vera, því er áríðandi, að safna sér
fjársjóðum á himni, en ekki á jörðu, því að sá, sem það gerir, er
heimskingi, sem stendur allslaus uppi, þegar hann verður að skilja við
þetta líf, og verra en það, því að ef hann hefur látið auðinn tæla sig til
munaðarlífis, mun hann kveljast í brennandi þorsta girnda sinna, þegar
hann kemur í andlega lífið (Mt. 6,19nn, Lk. 12,15nn, 16,19nn). Heldur