Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Blaðsíða 23
MÚLAÞING
21
þeirra fluttist upp í norðursýsluna. En á fyrri hluta þessarar aldar týnist
nafnið Munnveig, hvernig sem það var nú til komið og hvað sem það
merkti. Kannski einhvers konar “vemd, styrkleika”.
Og þá er það hið merkilega nafn Rustíkus, sbr. áður Halla Rustíkus-
son.
Rustíkus er latína (Rusticus) og merkir sveitamaður (sbr. ensku rural).
Latneska andstæðan var Urbanus (af urbs=borg). Bæði þessi nöfn urðu
hjá Rómverjum heiti helgra manna. Frá píslarvotti hins fyrra nafns segir
í Heilagra manna drápu meðal annars svo:
Lifnaðar smiður í loganda ofni
lengi stóð og sakaði engu.
Næri hafði níu tigi ára
náðar valdur er þrautir háði.
Nafnið Rustíkus hafði borist hingað ekki síðar en á 15. öld og þótti
gott, svo sem önnur nöfn sannheilagra manna. Arið 1703 voru sex hér á
landi, flestir austanlands, en lengi vel voru þeir fleiri í Norður-Múla-
sýslu en Suður. Árið 1801 var einn í suðursýslunni: RustíLus Sigurðsson
bóndi og hreppstjóri, 39 ára gamall, Eyrarteigi í Skriðdal.
Smátt og smátt gleymdist píslarvotturinn, og hafi menn skilið latínu,
var ekki víst að fínt hafi þótt að vera sveitamaður. Hins vegar þekktu
menn orðin rosti, rósta og rwsí/=drussi, ruddi, og eðlilega settu menn
Rustíkus í samband við það og sögðu t.d. að þessi eða hinn væri óttaleg-
ur rustíkus. Enn voru þó eftir tveir Rustíkusar 1910, báðir fæddir Norð-
Mýlingar, en það voru líka hinir síðustu. Menn hafa að vonum ekki
treyst sér til að taka þetta nafn upp á nýjan leik.
Ein var Þrúða á íslandi 1801, en þó hafa vafalaust ýmsar verið nefnd-
ar svo dags daglega, þær sem hétu Arnþrúður, Sigþrúður o.s.frv. Þrúða
er veik mynd nafnsins Þrúður, en sagt var að Þór ætti dóttur er svo héti.
Þrúður, og þá Þrúða, er hin sterka.
Þrúða Jónsdóttir var 59 ára vinnukona á Þorvaldsstöðum í Breiðdal
1801.
Þrúða kemur hvorki fyrir í Landnámu né Sturlungu, en er komið í
heimildir ekki síðar en á 15. öld, og um tíma hafa þær ekki verið svo
fáar, sex til dæmis 1703, og er þá ein þeirra í Suður-Múlasýslu. Árið
1845 voru þær fjórar og allar í Suður-Múl. Síðan fækkaði fljótt og hvarf
nafnið þónokkra hríð. Ég fæ ekki séð að það hafi verið endurnýjað fyrr
en 1985, og þá sem síðara nafn, sbr. þjóðskrá 1989.