Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1993, Blaðsíða 89
MÚLAÞING
87
skapa-árferði. Þetta var sjötta harða vorið í röð. Hefði ókeypis fengist
flutningar til Ameríku mundu 3/4 partar landsmanna hafa farið þangað,”
skrifar hann.
Og vorið 1888, rétt áður en afi tók sig upp með fjölskyldu og fluttist
til suðlægara byggðarlags, skrifar hann 1.-5. maí: “Alla þessa daga
grenjandi norðvestan bruna-hríðar, allt gefið upp... gersamlegt heyleysi
nálega alls staðar á Langanesi, Sléttu, Öxarfirði og víðast í Þistilfirði. En
líkn flestra til þessa tíma var kornið frá Raufarhöfn.”
Seint í júlí skrifar hann um stöðuga kuldaþurrka og ofboðslegt gróður-
leysi. í þannig ástandi kvaddi prófastur umdæmi sitt, og var nema von.
Séra Jón Austmann, tengdafaðir afa, endaði prestskap sinn í Stöð í
Stöðvarfirði og þar lést hann 6. september 1887. Afi fór austur að jarð-
syngja tengdaföður sinn. Á leið sinni til baka var hann samferða upp á
Hérað meistara Eiríki Magnússyni frá Heydölum, bókaverði í
Cambridge á Englandi. í þessari ferð einsetti hann sér að sækja um Stöð
og segir Eirík hafa verið hvatamann þess. Af öðrum heimildum má ráða
að Helga Jónsdóttir, ekkja Jóns Austmanns, hafi lagt að tengdasyni sín-
um að sækja um kallið. Búferlaflutningi afa frá Svalbarði til Stöðvar var
þannig háttað að 4. júlí 1888 komu að Svalbarði Daníel og Stefán frá
Jórvík i Breiðdal, að sækja búslóðina. í blaðinu ísafold höfðu þeir lesið
þá frétt að Guttormi hefði verið veitt Stöð hinn 17. maí en ekkert veit-
ingarbréf var komið til hans enda hafís fyrir Norðurlandi og engar gufu-
skipaferðir þar um hafnir. Hinn 7. júlí lögðu Austfirðingarnir af stað
með búslóðina á átta hestum en í þann mund messaði afi, fermdi og tók
fólk til altaris. Þau afi og amma fóru síðan að búa sig og börnin undir
brottförina. Þegar veitingarbréfið barst um miðjan júlí var ekki eftir
neinu að bíða og fylgdu þeim saknaðarkveðjur og frómar óskir Þistil-
firðinga. Dæturnar, Guðríður 5 ára, og Guðlaug 3ja ára, voru fluttar í
kössum á rauðum folaldskapli en Þórhildur reiddi Sigríði eins árs til
skiptis við aðra konu. Vigfús, 9 ára, hafði sinn hest. Ferðin til Stöðvar-
fjarðar tók fjölskylduna 16 daga, að vísu með viðdvöl á Hallormsstað
hjá Guðríði stjúpu Guttorms, Elísabetu mágkonu og frænku og Björgvin
hálfbróður hans. Einnig dvaldist þeim í Heydölum. Fimmtudaginn 9.
ágúst var riðið í hlað í Stöð.
Séra Guttormur Vigfússon varð prestur í Stöð 43ja ára að aldri. Eftir
16 ára útivist frá átthögum sínum sem prestur var hann nú kominn í
námunda við feðra- og mæðraslóðir og af dagbókum hans má ráða að
hann hafi gert sér vonir um að geta endað prestferil sinn á Fljótsdalshér-
aði. En nú var búferlaflutningum hans lokið.