Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 10
10
Kirkjan er ásamt Alþingi elsta stofnun þjóðarinnar, samferða henni um aldir þjóðveldis,
konungdæmis, nýlendustjórnar, sjálfstæðisbaráttu og á lýðveldistíma.
Þegar mikilvægar stoðir bresta reynir meira á hinar sem eftir standa, stofnanir sem fylgt
hafa þjóðinni um langan aldur en líka á eðliskosti þjóðarinnar, innri styrk, samstöðu og
samhjálp.
Á fyrri tíð var sú félagsþjónusta sem nú er veitt af sveitarfélögum ekki fyrir hendi í
formlegri mynd. Þá hvíldi þunginn af því starfi á kirkjunnar mönnum sem sinntu sálu-
sorgun, hlustuðu, veittu ráð, hughreystu; presturinn var í senn sálfræðingur, félags-
ráðgjafi, heimspekingur, mannvinur og mælskumaður.
Eins og málum þjóðarinnar er háttað nú, reikar hugurinn til margra kirkjuskörunga frá
fyrri tíð og kannski kemur eldklerkurinn fyrstur í hugann, presturinn sem hélt utan um
sína hjörð, óbilandi hirðir frami fyrir hamförum náttúrunnar.
Kirkjan er enn á okkar tímum burðarstrengur í öryggisneti sem ætíð er okkur mikilvægt
en þó aldrei sem nú þegar öldurót atvinnumissis og upplausnar skellur á heimilum
landsins. En samfélagsnetið felst líka í hugmyndaarfi hins kristna siðferðis, þeirri hugsun
að fólk í sveitarfélagi, raunar landsmenn allir, þurfi að standa saman þegar vá ber að
dyrum.
Það hefur verið fróðlegt að kynnast því í heimsóknum mínum til byggða landsins síðustu
daga hve kirkjan er fús að taka höndum saman við stofnanir, sveitarfélög og önnur
samtök, opna dyr sínar fyrir fólki sem þarf á huggun og hjálp að halda.
Kirkjan er ríkulega búin að langri sögu, menningu og lærdómi, alþjóðlegri sýn og
íslenskum rótum – boðberi lögmáls sem er samgróið siðferðisvitund Íslendinga.
Verkefni dagsins og næstu ára kalla því á virkni kirkjunnar með skýrari hætti en oftast
áður, kalla á leiðsögn, samkennd og hjálp; að komið sé til móts við einlægar óskir frá
einstaklingum, fjölskyldum, heilli þjóð.
Þjóðkirkja er fallegt orð – en líka hugsjón, grundvöllur skipunar sem Íslendingar hafa
kosið sér; þjóðkirkja – nú er hún knýjandi nauðsyn hvern einasta dag.