Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 63
63
starfsreglna frá Kirkjuþingi og aðrar réttarskapandi ákvarðanir þess. Í 13. gr. er
Kirkjuþingi fengið ákvörðunarvald um skipan Kirkjuráðs og umboð kirkjuráðsmanna að
öðru leyti en því er varðar setu biskups Íslands í ráðinu og forsæti hans. Þá skuli vera
ótvírætt að Kirkjuráð beri ábyrgð gagnvart Kirkjuþingi, sbr. 14. gr. Í 20. gr. og 25. gr. er
lagt til að biskup Íslands og biskuparnir í Skálholti og á Hólum verði skipaðir
ótímabundið í embætti í stað fimm ára samkvæmt 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og
skyldur starfsmanna ríkisins. Þá er lagt til í 26. gr. að í stað embættisheitisins
vígslubiskup verði tveir síðarnefndu biskuparnir kenndir við hina fornu biskupsstóla án
þess þó að vald- og verksviði þeirra verði breytt enda er eitt biskupsdæmi á Íslandi. Með
frumvarpinu er gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd Þjóðkirkjunnar verði
lagðar niður og Kirkjuþing setji nýjar starfsreglur um meðferð agabrota og lausn
ágreiningsmála innan Þjóðkirkjunnar, sbr. 24. gr. Biskup Íslands fái þar að auki ákveðið
úrræði þegar sérstaklega stendur á og nauðsyn ber til að bregðast við vegna ásakana eða
brota í starfi, einkum af siðferðilegum toga, þ.e. heimild til að setja starfsmenn
Þjóðkirkjunnar í launað leyfi í allt að sex mánuði án samþykkis þeirra. Í 27. gr. eru sett
skýrari ákvæði en nú er að finna í lögum um staðgöngu vegna vanhæfis biskups Íslands
til meðferðar einstaks máls. Þá er lagt til í frumvarpinu að lög nr. 36/1931 um
embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra verði felld úr gildi. Efnisatriði þeirra
um rekstrarkostnað embætta presta og prófasta og löggiltar embættisbækur eru flutt í
frumvarpið, 2. mgr. 33. gr., 2. mgr. 34. gr. og 2. mgr. 39. gr. Þá verði Kirkjuþingi ætlað
að setja gjaldskrá um aukaverk presta í stað kirkjumálaráðherra, sbr. 6. mgr. 34. gr. Lagt
er til að lög nr. 9/1882 um leysing á sóknarbandi verði felld úr gildi og Kirkjuþingi fengið
vald til að kveða á um þau efni í starfsreglum, sbr. 5. mgr. 29. gr. Þá er í 6. mgr. sömu
greinar gert ráð fyrir því að Kirkjuþing setji starfsreglur um samráðsvettvang leikmanna
en sérstakt ákvæði um leikmannastefnu í 58. gr. núgildandi laga falli brott. Í 37. gr.
frumvarpsins er kveðið á um að biskup Íslands geti veitt prestsembætti að eigin ákvörðun
ef ekki fæst niðurstaða í valnefnd eða með kosningu. Þá geti hann ákveðið að auglýsa
embætti laust til umsóknar að fimm ára skipunartíma liðnum, svo sem ráð er fyrir gert um
veitingarvaldshafa í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þótt engin
tillaga hafi komið fram um það í prestakalli. Í 44. gr. er lagt til að þær kirkjur og
kirknaeignir í umsjá aðila innan Þjóðkirkjunnar sem þinglýstar eignarheimildir ná ekki til
verði lýstar eign Þjóðkirkjunnar og viðkomandi sóknar í lögum. Þá verði skýrlega kveðið
á um að engar kirkjur eða kirknaeignir verði látnar af hendi nema biskup Íslands,
Kirkjuþing og viðkomandi sókn samþykki. Myndi það eiga við um þessar eignir óháð því
hvort þinglýstar eignarheimildir eru fyrir hendi eða ekki. Loks er í 49.gr. almenn heimild
fyrir Kirkjuþing til að setja starfsreglur um önnur málefni Þjóðkirkjunnar en frumvarpið
tekur til enda verði þess gætt að þær séu ekki í andstöðu við lög um trúarleg og kirkjuleg
málefni.