Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 94
94
Ávarp forseta Kirkjuþings við þingslit
Virðulega Kirkjuþing.
Nú er komið að lokum þessa Kirkjuþings, sem segja má að hafi starfað við óvenjulegar
aðstæður. Annars vegar var minnst merkra tímamóta, bæði 75 ára afmælis Kirkjuráðs og
hálfrar aldar afmælis Kirkjuþings. Á setningarfundinn komu margir góðir gestir, ráða-
menn okkar og fulltrúar frá systurkirkjunum á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Í máli allra
þeirra, sem þar tóku til máls, mátti greina mikinn hlýhug í garð Þjóðkirkjunnar og þess
mikla og gefandi starfs, sem unnið er á hennar vegum, bæði hér á Kirkjuþingi og víðs
vegar um þjóðfélagið allt. Það er okkur dýrmætt vegarnesti. Á hinn bóginn starfaði þetta
Kirkjuþing í skugga einstæðrar efnahagskreppu í þjóðfélaginu og raunar víðar um heim,
sem ekki sér fyrir endann á, kreppu sem vafalaust verður mörgum þung í skauti og veldur
atvinnumissi, skorti, upplausn heimila og kvíða. Þá reynir til muna á innviði
Þjóðkirkjunnar, sérhvern þjón hennar og liðsmann hvar í sveit sem þeir eru settir. Allt það
góða starf, sem kirkjan megnar að inna af hendi, verður unnið í trausti og vissu þess að
Drottinn leggi líkn með þraut og öll él stytti upp um síðir.
Fyrir þetta Kirkjuþing voru lögð 22 mál, sex þeirra voru þingmannamál, Kirkjuráð flutti
níu mál og biskup Íslands þrjú mál. Á þinginu sjálfu lagði allsherjarnefnd fram tillögu til
þingsályktunar vegna efnahagsþrenginga Íslendinga og fjárhagsnefnd lagði fram þrjú
mál, eina þingsályktunartillögu um niðurfellingu á gjaldtöku fyrir fermingarfræðslu og
skírn og tvær tillögur um breytingar á starfsreglum, annars vegar um rekstrarkostnað
prestsembætta og vegna prófastsstarfa og hins vegar um íslensku þjóðkirkjuna erlendis.
Verkaskipting nefnda var á þann veg að löggjafarnefnd fékk fjögur mál til meðferðar,
fjárhagsnefnd sex mál auk þeirra þriggja sem hún lagði fram og allsherjarnefnd sex mál
auk þingályktunartillögunnar frá henni sjálfri. Kirkjuþing hefur afgreitt þessi 22 mál með
fjórum starfsreglum um breytingar á eldri starfsreglum, 17 ályktunum og samþykkt um
staðfestingu á stofnskrá fyrir Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar, rannsókna- og
fræðaseturs í trúarbragðafræðum og guðfræði. Eitt mál var fellt við fyrri umræðu og eitt
var dregið til baka.
Það er alltaf erfitt að gera upp á milli mikilvægis mála á Kirkjuþingi því að langflest
þeirra horfa Þjóðkirkjunni til heilla með einhverjum hætti og styrkja starfsgrundvöll
hennar. Umfang málanna er þó að sjálfsögðu mismikið. Það má með góðum vilja og
virðingu fyrir öllum þingmálum segja með nokkrum sanni að tvö þeirra hafi sérstöðu að
þessu sinni, mál sem með ótvíræðum hætti skýra og skapa þann kirkjurétt, sem með
skírskotun til fortíðar vísar leiðina til framtíðar. Annað þeirra eru hinar gagnmerku og
ítarlegu samþykktir um innri málefni kirkjunnar, sem biskup Íslands hefur unnið að og
lagt fram til umræðu og skoðanaskipta þótt endanlegri afgreiðslu málsins verði ekki lokið
fyrr en á Kirkjuþingi 2009. Hitt málið er það frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga, sem varð
þess valdandi að Kirkjuþingi var frestað hinn 30. október síðastliðinn til dagsins í dag.
Þetta frumvarp hefur verið unnið í góðri samvinnu við dóms- og kirkjumálaráðherra,
Björn Bjarnason, sem hvatti eindregið til þess í ræðu sinni á setningarfundi Kirkjuþings
að þingið samþykkti frumvarpið og lýsti sig reiðubúinn til að vinna þegar að framgangi