Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 61
61
innan lögmæltra marka. Í aðdraganda og undirbúningsvinnu þeirrar löggjafar var skýrlega
haft að leiðarljósi að ekki væri stefnt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Svo er heldur ekki nú
enda hefur kirkjan lagt á það ríka áherslu að hún vill vera þjóðkirkja í tengslum við
ríkisvaldið án þess að vera ríkiskirkja.
Meginhlutverk þeirrar kirkjulaganefndar sem samið hefur lagafrumvarp þetta var að leita
leiða til að einfalda almenna löggjöf frá Alþingi um málefni Þjóðkirkjunnar og færa
ábyrgð og ákvarðanatöku í þeim efnum í enn ríkara mæli til Kirkjuþings. Að því var
stefnt að lög um Þjóðkirkjuna yrðu einföld rammalög þar sem ríkisvaldið mæli fyrir um
tilvist Þjóðkirkjunnar, helstu stofnana hennar og grundvöll í samræmi við stjórnarskrár-
bundna skyldu til að styðja og vernda hina evangelísku lútersku kirkju sem þjóðkirkju á
Íslandi. Vegna þessa sambands ríkis og kirkju verður Alþingi þó að mæla fyrir um
meginreglur og lögbundið skipulag er til þess sé fallið að gera kirkjunni kleift að rækja í
hvívetna veigamiklar skyldur sínar sem þjóðkirkja á Íslandi.
Kirkjulaganefnd lagði frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga fyrir Kirkjuþing 25. október
2008 og hlaut það góðar viðtökur á þinginu. Þótt áður hafi verið við það miðað að
frumvarpið kæmi til endanlegrar afgreiðslu á Kirkjuþingi 2009 að lokinni kynningu í
söfnuðum landsins var ákveðið, meðal annars vegna hvatningar frá kirkjumálaráðherra
við setningu þingsins, að fresta fundi Kirkjuþings um fjórar vikur og ljúka endanlegri
afgreiðslu frumvarpsins og síðari umræðu um það á Kirkjuþingi 28. nóvember 2008 en
senda frumvarpið áður próföstum og héraðsnefndum til kynningar heima í héraði.
III.
Í greinargerð með frumvarpi því sem lagt var fram á 121. löggjafarþingi og varð að
lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar var fjallað ítarlega um
tengsl ríkis og kirkju og tildrög þess að veita Þjóðkirkjunni meira sjálfstæði í innri málum
kirkjunnar. Þar sagði meðal annars:
„Í 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá 1944 segir að hin evangelísk-lúterska
kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og
vernda. Ákvæði þetta hefur staðið í stjórnarskránni allt frá 1874, en upphaflega var þó
notað orðalagið „hið opinbera“ í staðinn fyrir „ríkisvaldið.“ Í stjórnarskránni, sem er hin
æðsta réttarheimild, eru ekki gefin nánari fyrirmæli um þetta efni, t.d. um það hvernig
ríkisvaldið skuli styðja Þjóðkirkjuna og vernda. Með „ríkisvaldinu“ er vafalaust átt við
alla þætti þess, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og þær stofnanir sem
með þessi málefni fara – einkum þá að sjálfsögðu tvo fyrri þættina. Nánari framkvæmd
þessa stjórnarskrárákvæðis er því í höndum ríkisvaldsins og ber Alþingi fyrst og fremst
ábyrgð á því að með almennum lögum sé tryggt að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.
Það sem mestu máli skiptir varðandi það efni sem hér er til meðferðar er það að af þessari
stjórnarskrárgrein verður sú ályktun dregin, svo að tvímælalaust er, að ríki og þjóðkirkja
eru ekki eitt – þ.e. tiltekinn aðili, ríkið, á að styðja og vernda annan aðila, Þjóðkirkjuna.
Skilyrði þess að vera íslenskur ríkisborgari annars vegar og þjóðkirkjuþegn hins vegar
þurfa heldur ekki að fara saman, svo sem kunnugt er. Það breytir ekki þessari niðurstöðu