Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 60
60
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
I.
Kirkjuþing 2008 hefur beint þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra að flytja
frumvarp þetta til nýrra þjóðkirkjulaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu,
stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar.
Á Kirkjuþingi 2007 var samþykkt ályktun um að fela Kirkjuráði að skipa fimm manna
nefnd til að endurskoða lög nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar í
ljósi tíu ára reynslu og aukins sjálfstæðis kirkjunnar í málefnum hennar, sbr. 3. mgr. 23.
gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar sem heimilar
Kirkjuþingi að hafa frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beina
þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi. Nefndin skyldi jafnframt huga að
því hver nauðsyn væri að breyta ákvæðum annarra laga í kjölfar breytinga á þjóð-
kirkjulögum og vegna breyttra aðstæðna. Þá skyldi nefndin athuga hvernig starfsreglur
sem Kirkjuþing setur yrðu best samræmdar breyttri löggjöf.
Í greinargerð með tillögunni kom fram að með lögum nr. 78/1997 hefði sjálfstæði
kirkjunnar aukist verulega og sú þróun hefði haldið áfram við breytingar sem síðan hefðu
orðið á lögunum. Með þessari rammalöggjöf um Þjóðkirkjuna hefði ákvörðunarvald um
skipan mála í kirkjunni verið fært til Kirkjuþings í ríkara mæli en verið hefði, sérstaklega
um hin ytri mál. Sú þróun hefði haldið áfram að Kirkjuþing hefði sett starfsreglur um
ýmis atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður hefðu verið bundin í lög. Töluverð reynsla
hefði þannig verið byggð upp í starfi Kirkjuþings og innri stjórnsýsla kirkjunnar hefði
verið að breytast og eflast á þessum tíma. Í greinargerðinni var því meðal annars beint til
nefndarinnar að huga sérstaklega að ákvæðum sem leitt gætu til enn meira sjálfstæðis
Þjóðkirkjunnar og hvernig færa mætti fleiri ákvæði úr lögum í starfsreglur frá Kirkju-
þingi.
Í kjölfar Kirkjuþings 2007 ræddi biskup Íslands mál þetta við dóms- og kirkjumála-
ráðherra sem lýsti því viðhorfi að hann væri tilbúinn að greiða því götu að endurskoða
þjóðkirkjulögin og tilnefna fulltrúa í nefndina. Kirkjuráð skipaði þriggja manna nefnd í
þessu skyni í apríl 2008. Pétur Kr. Hafstein forseti Kirkjuþings og fyrrverandi hæsta-
réttardómari var skipaður formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn voru séra Kristján
Björnsson kirkjuráðsmaður og Bryndís Helgadóttir lögfræðingur í dóms- og
kirkjumálaráðuneytinu, tilnefnd af ráðherra. Þá störfuðu með nefndinni Ragnhildur
Benediktsdóttir lögræðingur og skrifstofustjóri á Biskupsstofu sem var ritari nefndarinnar
og Hjalti Zóphóníasson lögfræðingur og skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumála-
ráðuneytinu sem ráðherra kvaddi til að veita nefndinni sérfræðilega ráðgjöf.
II.
Með lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar urðu straumhvörf í
skipulagi kirkjunnar, og sjálfstæði hennar gagnvart ríkisvaldinu var aukið verulega um
leið og Kirkjuþing fékk aukið vægi sem æðsta valdastofnun í málefnum Þjóðkirkjunnar