Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 36
36
13. mál Kirkjuþings 2008. Tillaga að starfsreglum um breyting á starfsreglum um
presta nr. 735/1998
Um er að ræða breytingar sem fela í sér að heimilt verður að skipa valnefnd með
fulltrúum tveggja prestakalla. Byggist það á því að unnt verði að auglýsa embætti presta
sem þjóna í tveimur prestaköllum. Núverandi tilhögun starfsreglna um valnefndir gerir
ekki ráð fyrir þessu þar sem nefndirnar eru bundnar við prestaköll. Þá er lagt til að meta
skuli hæfni og reynslu af stjórnunarstörfum þegar valið er í embætti sóknarprests.
Ákvæðum um skiptingu starfa milli presta í prestaköllum þar sem fleiri en einn prestur er,
er breytt og þau samræmd betur ákvæðum laga um stöðu, stjórn og starfshætti
Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Lagt er til að biskupi sé heimilt að setja skilyrði um
prestsþjónustu prests sem veitt er leyfi vegna ásakana á hendur honum.
14. mál Kirkjuþings 2008. Tillaga að staðfestingu stofnskrár fyrir Rannsóknarsetur
í trúarbragðafræðum og guðfræði
Kirkjuráð óskar eftir að Kirkjuþing staðfesti stofnskrá fyrir Rannsóknarsetur kirkjunnar í
guðfræði og trúarbragðafræðum á grundvelli 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti
Þjóðkirkjunnar nr.78/1997. Stofnunin verði í eigu Þjóðkirkjunnar. Gert er ráð fyrir að
aðsetur rannsóknarsetursins verði í Kapellu ljóssins á Vallarheiði í Reykjanesbæ.
Rannsóknarsetrið er stofnað, með áðurgreindum fyrirvara um samþykki Kirkjuþings í
samstarfi við Guðfræðistofnun Háskóla Íslands, og mun starfa þar í samvinnu við Al-
þjóðaháskólann Keili. Rannsóknarsetrinu er ætlað að stefna að samvinnu við erlendar
guðfræðistofnanir, háskóla hérlendis sem erlendis, rannsóknarstofur í trúarbragðafræðum,
aðrar kirkjudeildir og Samráðsvettvang trúarbragða. Rannsóknarsetrinu er ætlað að vinna
að rannsóknum í guðfræði, auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla
að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa.
15. mál Kirkjuþings 2008. Tillaga til þingsályktunar um breytta skipan sókna,
prestakalla og prófastsdæma
Lagt er til að umræða um þær breytingar sem biskupafundur telur fyrirsjáanlegar á næstu
árum á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma hefjist á Kirkjuþingi áður en
kynningarferli hefst heima í héraði. Hér er því um nýbreytni að ræða. Rétt er þó að taka
fram að hugmyndir þessar hafa verið kynntar hlutaðeigandi sóknum, prestum og
próföstum, án þess þó að um formlegar umsagnarbeiðnir hafi verið að ræða. Hugmyndir
þessar lúta að sameiningu þriggja fámennra prestakalla við grannprestaköll þegar
hlutaðeigandi sóknarprestar láta af embætti. Felur hugmyndin í sér að þau prestaköll sem
taka við þjónustu eru styrkt. Biskupar munu meta framhald málsins eftir því hver
viðbrögð Kirkjuþings við hugmyndunum verða.