Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2013, Side 46
Ritrýnd grein
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (lceland) 10, 2013-, 44-64
Brotthvarf og endurkoma fullorðinna
í nám á framhaldsskólastigi
Gestur Guðmundsson og Hulda Karen Ólafsdóttir
Háskóla Islands
í greininni er sjónum beint að nemendum sem horfið hafa frá framhaldsskólanámi
en snúa aftur eftir 25 ára aldur. Nánast helmingur brotthvarfsnema gerir það
og hefur þeim ekki verið gefinn nándar nærri sami gaumur og brotthvarfinu.
Hár aldur við lok framhaldsskóla er ein helsta alþjóðlega sérstaða íslenska
framhaldsskólakerfisins, þar eiga rík eftirspurn á vinnumarkaði og mikill
sveigjanleiki framhaldsskóla stóran þátt. f greininni er byggt á rýnihópa- og
einstaklingsviðtölum við 13 manns á aldrinum 27-37 þar sem þau segja frá
ástæðum brotthvarfs á sínum tíma, vegferð að því loknu og ástæðum endurkomu
í framhaldsskóla. Ástæður brotthvarfs voru margþættar, en flestir segja að þau
hafi fylgt straumnum inn í framhaldsskóla og notið ónógrar leiðsagnar foreldra
og skóla þar til þau voru komin í þrot í náminu. Gnægð atvinnutækifæra dró
þau einnig til sín. Flestir karlmennirnir komust í „uppgripavinnu", konur hófu
frekar vegferð sína í láglaunastörfum en unnu sig sumar upp. Endurkoma
þeirra markast annars vegar af því að þau fengu aukið sjálfstraust, vinnuaga
og fastari lífsstefnu á þessum tíma, en jafnframt varð þeim ljóst að möguleikar
þeirra voru takmarkaðir án frekari menntunar, og sum þeirra misstu vinnu í
hruninu 2008-9. Þau stunda nú nám á liáskólabrú eða í iðnnámi, njóta þar betri
leiðsagnar og aðhalds en áður og nálgast nú námsörðugleika og aðrar hindranir
sem þröskulda til að fara yfir en ekki lokaðar dyr. Reynsla endurkomunemanna
er skoðuð í ljósi alþjóðlegra rannsókna á vegferð og lífssögu ungs fólks. Flakk
á milli vinnu, skóla og annarra möguleika einkennir vegferð vaxandi hluta
evrópskra ungmenna, en hinn opni vinnumarkaður og framhaldsskóli íslands
hefur gert þennan hóp enn stærri á íslandi. í greininni er rætt hvernig draga
megi lærdóma af endurkomunemendum um það hvernig draga megi úr brott-
hvarfi, en einnig er rætt hvort ekki sé raunsætt að miða við að hluti ungmenna
fari um tíma út í atvinnulíf og snúi síðan aftur inn í framhaldsskólana.
Lykilorð: Brotthvarf, annað tækitæri, lífssaga vals, jójó-vegferð, fullorðnir námsmenn.
44