Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 2
2 TMM 2008 · 2
Frá ritstjóra
Tveir glöggir áskrifendur tóku eftir einkennilegri merkingu á síðasta hefti.
Heimir Pálsson þakkaði fyrir „framúrstefnuheftið af TMM, sem segist vera 1.
hefti 69. árgangs og hafa komið út í nóvember 2008. Það þykir mér meiri fram-
úrstefna en þótt það væri allt skrifað á vonlensku.“ Og Edmund skrifar: „I do
not quite understand why the 1. hefti is for November 2008 but the issue is very
interesting nonetheless.“ Elskulegir áskrifendur eru beðnir um að breyta nóv-
ember í febrúar á bls. 1.
Yfirferðin yfir það sem var gert á Jónasarári í Á líðandi stund þótti þörf, en
Gunnar Stefánsson vill bæta við framlagi Rásar 1, „röð fjögurra vandaðra þátta
í umsjón Hauks Ingvarssonar, sem fluttir voru á sunnudagsmorgnum frá 21.
október til 11. nóvember.“
Síðasta hefti naut talsverðra vinsælda þótt ekki væru allir á eitt sáttir um
grein Emils Hjörvars Petersens um vonlensku Sigur Rósar. Böðvari fannst lítið
til koma: „Krakkar sem eru að syngja eitthvert bull, bulla af því að þeir ráða
ekki við orð, hafa aldrei lesið ljóð, kunna ekki að láta standa í hljóðstaf og eru
ótalandi. Basta.“ En Heimi fannst greinin „bráðgóð lesning strax í fyrstu yfir-
ferð en ég hygg hún batni við að lesa hana dálítið oft.“ (Sjá bréfadálk á www.
tmm.is).
Heimi fannst ljóð Árna Ibsen „verulega grípandi“, og það þótti Böðvari líka:
„það er í þeim góður tónn. Að smíða ramma úr rifbeinum sínum utan um fjöl-
skylduna, það er skáldskapur.“ Honum finnst Thor og Umberto og Sigrún
Björnsdóttir „þess háttar lesning að sólin skín þó það sé rok og rigning. […] Og
svo er það bréfið hennar Kristínar í Hollywood, það var fengur. Mikill fengur.“
Heimir er sammála því: „Það er stór fengur að því að fá bréf Kristínar í heild á
prent. Haltu endilega áfram að leita uppi slíkar frumheimildir og birta okkur,“
segir hann, og Edmund hittir naglann á höfuðið í sínu bréfi: „I have enjoyed
the text by Kristin enormously – it is both amusing and informative. When a
highly intelligent woman takes a strong dislike to another woman, the result is
bound to be classy.“ Vilborg Dagbjartsdóttir var ekki eins ánægð, fannst Kristín
ósanngjörn og óþarflega meinleg.
Greinarnar um leiklist og myndlist fengu góðar umsagnir, svo og yfirlits-
grein Jóns Yngva um skáldsögur síðasta árs. Margir fögnuðu grein Katrínar
Jakobsdóttur um Línu Langsokk, og smásaga Steinars Braga vakti bæði gleði
og undrun, sem vonlegt er með svo ævintýralega sögu.
Nokkrar umræður urðu í fjölmiðlum um athugasemd Einars Kárasonar við
frásögn í nýrri bók Hjálmars Sveinssonar um Elías Mar. Ekki var þó haft
samband við Davíð Oddsson svo vitað sé, en hann er sá eini sem getur skorið
úr í málinu …
Nú er sumarið að koma. Njótið þess, kæru lesendur.
Silja Aðalsteinsdóttir