Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 11
TMM 2008 · 2 11
B l ó ð ö r n í F l a t e y
sem þjóðarsálin þekkir form fornsagnanna og er að stórum hluta ónæm
fyrir voðalegum atburðum í fortíðinni. En þegar glæpur á gamla mát-
ann er framinn í nútímanum horfir málið öðruvísi við.
Viktor Arnar sýnir í Flateyjargátu að kannski höfum við ekki breyst
svo mikið þrátt fyrir siðmenninguna. Við erum ennþá sama þjóðin og
fremjum ennþá glæpi þótt þeir hafi breyst. En eitthvað er það í land-
anum sem veldur því að glæpir sjokkera ekki eins mikið nú og áður fyrr.
Ef til vill er það nútíminn með öllum sínum hraða og nýjungum, ef til
vill er það aldalöng sambúð okkar við glæpi.
Flateyjarbók stjórnar fleirum en Þormóði Kráki. Björn Snorri og
Gaston Lund eru fulltrúar menntunar og lærdóms í sögunni. En þeir
eru báðir svo ofsafengnir í menntunaráráttu sinni að hún dregur þá til
dauða þótt á ólíkan hátt sé. Gaston táknar augljóslega Danann sem
stendur vörð um menningargersemar Íslendinga og heldur þeim frá
landi og þjóð. Það óvenjulega er að hér er Daninn algjörlega dáleiddur af
verkinu sjálfu. Þetta er ekki aðeins spurning um rétt yfir eigninni held-
ur getur hann hreinlega ekki hugsað sér að lifa án handritsins. Það má
segja að Gaston Lund hafi „pervert“ afstöðu til handritsins, það er
honum mikilvægara en allt annað. Hann er haldinn blætisdýrkun þar
sem hann fær mikið út úr því að strjúka það og skoða, enda dregur Flat-
eyjarbók Gaston Lund til dauða. Bókin kallar á hann og hann hlýðir
með þeim afdrifaríku afleiðingum að hann missir af póstbátnum.
Svipuð þráhyggja þjakar Björn Snorra. Hann er dæmigerður íslenskur
fræðimaður nema að því leyti að honum er sama hvar handritið er
geymt svo lengi sem vel er hugsað um það og hann kemst að því. Þegar
hann missir aðgengið að handritinu deyr eitthvað í honum. Tengslin eru
svo sterk af hans hálfu að lífið verður einskis virði án þess. Viðbrögð
hans eru öfgafull, hann vanrækir dóttur sína og sjálfan sig, leggst í
drykkju og endar með krabbamein vegna slæms lífernis. Þessi þráhyggja
nær auðvitað engri átt, lífið heldur áfram þótt það sé ekki alltaf sann-
gjarnt. Gaston Lund og Björn Snorri hætta að geta greint á milli sín og
viðfangsefnisins og smám saman verður sjálfsmyndin og ástarþráin
eftir fræðiefninu eitt og hið sama. Þeir verða sjúkdómi fræðimannanna
að bráð: elska fræðiefni sitt of mikið.
Aðrar persónur eru einnig heillaðar af Flateyjarbók þótt ekki sé það
sjúklegt. Sigurbjörn gamli er dæmi um persónu sem þekkir bókina út og
inn en leyfir henni ekki að stjórna lífi sínu heldur lítur á sögurnar sem
dæmisögur. Högni barnaskólakennari og organisti er einnig heillaður af
fræðunum en hans hrifning nær lengra en til Flateyjarbókar. Hann er
hrifinn af bókum yfirleitt og reynir að kenna ungviðinu í Flatey að njóta