Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 15
TMM 2008 · 2 15
B l ó ð ö r n í F l a t e y
og byggðir fara enn í eyði og þar glatast ákveðin staðarþekking og
menningarvitund. Það eru fá samfélög eftir eins og Flatey Viktors Arn-
ars og fara þau flest minnkandi frá ári til árs.
Náttúrulýsingarnar í Flateyjargátu gera litla samfélagið enn meira
heillandi. Þær eru afar vel gerðar og finnur lesandinn nánast sjávarlykt-
ina og heyrir fuglagargið þegar gengið er yfir eyjuna sem er óspillt og
gjöful. Mengun er engin, það er ekki einu sinni bíll á eyjunni heldur
gengur fólk og dregur varning sinn á vögnum. Þetta samfélag verður
hálf-útópískt ef litið er á að þegar Viktor Arnar ritar söguna stóðu deilur
um virkjunina á Kárahnúkum sem hæst. Það er skemmtileg ádeila í því
að gefa út bók um fallegt eyjarsamfélag, kannski til að minna landann á
uppruna sinn og hversu gott við getum haft það.
Ýmislegt fleira er ólíkt með samfélögunum þá og nú. Í Flateyjargátu
er umræðan um handritin í hámarki og allir hafa sína skoðun. Höfund-
ur bætir því við í eftirmála að Flateyjarbók hafi komið aftur til Íslands
21. apríl 1971. Þá voru liðin ellefu ár frá sögutíma Flateyjargátu. Í dag
hugsa fæstir til þess að eitt sinn voru handritin ekki hér á landi; efnið er
ekki lengur hitamál þó að margir muni vel eftir umræðunum. Segja má
að doði nútíma Íslendingsins stafi meðal annars af áhugaleysi á þjóð-
ararfinum. Í Flatey Viktors Arnars þekktu allir sögurnar úr Flateyj-
arbók, núna heyrir það til undantekninga ef meðaljóninn getur sagt
eina sögu. En er þá ekki í lagi að gleyma þeim úr því sögurnar eru
óhugnanlegar og geta jafnvel leitt til fólskuverka? Skiptir kannski meira
máli að minnast þess afreks að við skrifuðum bækurnar og minna máli
hvað stendur í þeim? Í Flateyjargátu er ýjað að því að menningararf-
urinn geti verið hættulegur og þá sérstaklega þeim sem unna honum
mest. Er kannski bara gott að fáir þekki hann? Getur verið að með því
að fremja þann glæp að þekkja ekki menningararfinn sleppi Íslendingar
við alvarlegri glæpi? Svörin verða látin liggja milli hluta en ljóst er að
Viktor Arnar skilur eftir stórar og áhugaverðar spurningar.
Tilvísanir
1 Katrín Jakobsdóttir. 2004. „Ömurlegt, íslenskt morð.“ Feður, synir og fjölskyldur í
samfélagi íslenskra glæpasagna. MA-ritgerð í íslenskum bókmenntum við Heim-
spekideild Háskóla Íslands.
2 Umberto Eco. 1984a. Nafn rósarinnar. Thor Vilhjálmsson þýddi. Svart á hvítu,
Reykjavík.
3 Tzetan Todorov. 2000. „The typology of detective fiction.“ Modern Criticism and
Theory. A Reader, bls. 137–144. Ritstjórar David Lodge og Nigel Wood. Pearson
Education, Essex.