Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 18
18 TMM 2008 · 2
Úlfhildur Dagsdóttir
Af myndum og sögum
Myndasögur og sögur í myndum
Myndin í myrkrinu
Skrímsli í myrkrinu (2007) er saga um myrkfælni og hugrekki. Þar segir
frá því að kvöld eitt er litla skrímslið heima hjá sér, það er komið myrk-
ur „og allt er í ró.“1 Nema svo heyrist þrusk og ímyndunarafl litla
skrímslisins fer á flug. Það sér fyrir sér bófa og innbrotsþjófa, villidýr og
snáka og köngulær, og allt birtist þetta á myndum umhverfis skrímslið.
Í því að aumingja litla skrímslið er við það að bugast bankar stóra
skrímslið uppá og allt verður gott, því það er svo hugrakkt og stórt.
Þegar á hólminn er komið og þruskið heldur áfram verður stóra skrímsl-
ið líka hrætt, en svo sigrast þeir félagar á óttanum, því þeir hugsa með
sér að fyrst þeir geti orðið hræddir þá geti ókunnar ófreskjur líka skelfst.
Það sem þeir vita ekki og er aldrei sagt berum orðum, en við, lesendur
sögunnar, sjáum greinilega í myndunum, er að þruskið var allan tímann
framkallað af ketti. Hann birtist á myndinni þegar fyrsta þruskið heyr-
ist og hann stendur fyrir utan gluggann þarsem skrímslin fagna sigri
sínum á ófreskjunni. Þannig stendur sagan ekki án myndanna, því þær
koma ekki aðeins fram með lausnina á sögunni heldur einnig það sem
kalla mætti aðalboðskap hennar, það að ímyndunarafl hins myrkfælna
er miklu skrautlegra – og hættulegra – en sá hversdagslegi veruleiki sem
veldur þruski.
Skrímsli í myrkrinu er myndabók fyrir börn eftir Áslaugu Jónsdóttur,
Kalle Güettler og Rakel Helmsdal, myndirnar eru eftir Áslaugu. Þetta er
þriðja sagan um samskipti skrímslanna tveggja. Sú fyrsta, Nei! sagði litla
skrímslið (2004), fjallar um hvernig litla skrímslið fær yfir sig nóg af
yfirgangi stóra skrímslisins og mótmælir. Næsta bók heitir Stór skrímsli
gráta ekki (2006) og segir enn frá samskiptum hins stóra og litla, þarsem
litla skrímslið þarf nú að hughreysta félaga sinn.
Sagan um skrímslin í myrkrinu er ágætis dæmisaga um stöðu mynd-
arinnar í heimi ritmáls. Myndin er ýmist sett í þá stöðu að vera ómerki-