Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 21
TMM 2008 · 2 21
A f m y n d u m o g s ö g u m
sagna, en það er hvernig sjálft letrið verður hluti myndarinnar. Með
þessu móti er skapaður heill hljóðheimur og hafa japanskir myndasögu-
höfundar náð sérstökum hæðum í þessu. Þeir nota sitt fallega myndletur
til að búa til hljóð-letur sem verður órjúfanlegur hluti af myndheim-
inum. Orðin verða hluti af myndinni í krafti leturbreytinga og hreinlega
þess að vera felld inn í myndir. Síðasta síða Skrímsla í myrkrinu birtir
dæmi um þessa samsömun leturs við mynd; þar sést kötturinn í for-
grunni, í bakgrunni er runni og húsið, en inn um glugga þess sjáum við
skrímslin fagna. Kötturinn mjálmar og ‘mjáááá-ið’ lagar sig að útlínum
runnans og verður þannig hluti af myndinni.
Klassísk dæmi um verk sem er snertiflötur barnabóka og mynda-
sagna eru Múmínálfasögur finnsku skáldkonunnar Tove Jansson. Sög-
urnar eru einnig gott dæmi um bækur sem verða til útfrá mynd. Tove
Jansson var myndlistarkona sem starfaði meðal annars sem teiknari á
dagblaði. Múmínálfurinn birtist víða í myndefni eftir hana löngu áður
en bækurnar urðu til, upphaflega sem frekar óvinveitt og öllu mjóslegn-
ari vera, en síðan sem sá gildvaxni gleðigjafi sem fjöldi barna hefur tekið
ástfóstri við í meira en hálfa öld. Þegar Múmínálfabækurnar birtust
voru þær að sjálfsögðu með myndum eftir Tove sjálfa og áttu þær án
nokkurs vafa mikinn þátt í vinsældum sagnanna. Það er á færra vitorði
að myndirnar heilluðu svo að höfundurinn var fenginn til að gera
myndasögur um sagnaheiminn, og árið 1953 hófu göngu sína mynda-
sögur um múmínálfana í breska dagblaðinu London Evening News.
Þessar myndasögur er nú verið að endurútgefa í íðilfallegum útgáfum
og eru svo stórkostlegar að titrandi lesandi tímir varla að lesa þær, af
ótta við að allt verði búið allt of fljótt.6 Hér birtist nokkuð önnur útgáfa
af ævintýrum múmínálfanna en í bókunum, þó vissulega sé margt
keimlíkt, en þessar myndasögur eru gott dæmi um efni sem sker sig
þvert á allar markalínur í aldri.
Myndasögurnar sýna ennfremur hversu framsækinn myndasöguhöf-
undur Tove hefur verið. Hún gerir ýmiskonar tilraunir með formið og
þá sérstaklega hvað varðar notkun rammans, en á þeim tíma voru slíkar
tilraunir ekki algengar meðal myndasagnahöfunda.
Að sýna og segja
Í bók sinni Understanding Comics (1993, Að skilja myndasögur) skiptir
myndasöguhöfundurinn og -fræðingurinn Scott McCloud tengslum
orða og mynda í myndasögum í sjö flokka. Í fyrsta lagi má skipta
myndasögum eða einstökum hlutum þeirra niður eftir því hvort orð eða