Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 28
28 TMM 2008 · 2
Ú l f h i l d u r D a g s d ó t t i r
ings birtast í myndunum; Ragnheiður Gestsdóttir, Gunnar Karlsson,
Áslaug Jónsdóttir og Þórarinn Leifsson skapa öll afar ólíka myrkra-
heima í myndum sínum.
Sá síðastnefndi var, líkt og Halldór Baldursson, einn af GISP! hópnum
svokallaða sem stóð fyrir samnefndu myndasögutímariti. Á undanförn-
um árum hefur Þórarinn komið fram sem öflugur myndlýsir, nú síðast
með eigin sögu, Leyndarmálinu hans pabba (2007). Árið 2004 fékk hann
það hlutverk að myndskreyta nýja útgáfu á sögum H.C. Andersen í
endursögn Böðvars Guðmundssonar, og tókst myndlýsinum að mínu
mati betur en þýðandanum að fanga ævintýri Andersen og skapa þeim
nýjan búning. Þannig eru „Eldfærin“, sem er hressandi og svolítið villt
saga, myndlýst í dálítið villtum stíl og hundarnir sérlega vel útfærðir. Á
hinn bóginn ríkir kyrrð í myndunum af „Litlu stúlkunni með eld-
spýturnar“ og dáðist ég sérstaklega að sýnunum sem birtust og hurfu í
skini eldspýtnanna. Á sama hátt var yfirbragð hinna sagnanna við hæfi,
„Næturgalinn“ segir frá keisaranum í Kína og er dásamlega austurlensk
á meðan grallaraskapurinn í „Nýju fötum keisarans“ er sérlega vel út-
færður. „Ljóti andarunginn“ er bæði hrjáður og slæptur og Þórarni tekst
frábærlega upp í svipbrigðum dýranna.
Margröddun
Þó að ég leggi hér nokkra áherslu á að myndir beri sína eigin merkingu,
óháð eða sem viðbót við ritað mál, þá er ljóst að það er langt því frá að
allar myndabækur fyrir börn nýti sér þetta, ekki frekar en allar mynda-
sögur sýna ævinlega þá órjúfanlegu samþættun orða og mynda sem
hvað helst skilgreinir formið. Fjölmargar góðar myndabækur falla í
þann flokk McClouds þarsem myndir og orð eru jafnsterk, orðin segja
það sama og við sjáum á myndinni, og öfugt. Þetta felur ekki í sér að
myndirnar séu óþarfar (frekar en orðin), þó er hlutverk myndanna
aðallega að vera skreyting, svo vísað sé til þrískiptingar Áslaugar Jóns-
dóttur. Nálgunin á hlut myndanna í þessum bókum er önnur en þar
sem hlutur myndarinnar er jafnmikilvægur orðunum, en ljóst er að það
er ekkert til sem er ‘bara’ skreyting, allar myndir segja sína sögu, bæta
við orðin og túlka þau að einhverju leyti. Hér mætti nefna nýlegar
bækur eins og Einstök mamma (2007) eftir Bryndísi Guðmundsdóttur
með myndum eftir Margréti E. Laxness, þar sem fjallað er um heyrnar-
lausa móður og hvernig börn hennar upplifa heyrnarleysi hennar. Saga
Dr. Gunna, eða Gunnars Lárusar Hjálmarssonar, Abbababb! (2007), er
líka dæmi um þetta. Sú saga er útgáfa af samnefndu leikriti sem notið