Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Qupperneq 39
TMM 2008 · 2 39
B r é f t i l M á l f r í ð a r
þunnt nema þegar hún krullaði það. Þá stóð það beint upp í loftið,
hrokkið og rafmagnað, og sýndi hugsanir hennar.
Hún var gulleit og öldruð en það skipti ekki máli, því bros hennar var
hrífandi og svipbrigðamikið, eigið tungumál með alls kyns merkingum.
Ég man rödd hennar, djúpa, furðanlega unglega, og hlátur hennar eins,
með margvíslegum tilfinningum og tónum, allt frá fögnuði og kæti til
stríðni og einstaka óstöðvandi hláturroka. Hvorki fliss né skríkjur.
Þegar ég kynntist henni var líkami hennar orðinn einkennalaus, engin
brjóst sjáanleg, engar bogadregnar línur eða sveigur, jafnholda, smá-
beinóttur, aðeins fæturnir of sterkbyggðir fyrir umgerðina, ökklarnir
uxu upp úr skónum eins og tré úr jörðu. Hvað um það. Augun. Augu
hennar svo kraftmikil að ég man þau bæði sem dimm og björt. Hvernig
getur það verið? Ég man þau ljósgrágræn, köld og skýr eins og ískalt
vetrarvatn í læk, og ég man þau djúp, dökkblá, næstum svört, eins og
kyrrt vatn sem endurspeglar nóttina, dregur sérhverja birtu í djúp sín.
Hvernig gátu þau verið hvort tveggja? Ef til vill voru þau það ekki, en í
huga mér eru þau það og ég vil muna þau þannig og aldrei spyrja aðra
hvernig þeir sáu þau eða hvaða litar var getið í vegabréfi hennar.
Ég veit ekki hvað hún var gömul. Ég veit svo lítið um hana og man
hana ekki mjög vel. Hvers vegna spurði ég ekki meir? Það virtist ekki
skipta máli þá, en það gerir það núna, því ég mun aldrei skrifa henni
fleiri bréf. Ég átti með henni ein jól fyrir nærri þrjátíu árum, og síðan þá
hef ég skrifað henni í desember og fengið frá henni svör. Nú skrifar hún
ekki.
Ég var 19 ára þegar ég kynntist henni sumarið ’55, laus úr danska
heimavistarskólanum þar sem ég hafði verið geymd og mér kennt uns
ég innritaðist í heim sem ég hafði ekki reynslu af. Var hún sextug eða
bara fimmtug? Mér virtist hún gömul en þannig var með alla sem ekki
voru tvítugir. Fimmtíu og fimm ef til vill? Það skiptir ekki máli.
Ég fór frá borði Kaupmannahafnarskipsins, kom frá dönsku hásumri í
þoku og regn Reykjavíkur, í fylgd Helgu systur minnar, skáldsins manns
hennar og gamallar íslenskrar móður hans. Heimsókn, frí, ævintýri.
Við gistum ekki hjá Málfríði. Vinir okkar lánuðu okkur íbúð, en
heimili Málfríðar var griðastaður sem við gátum snúið til þegar okkur
sýndist, rúmgóð íbúð yfir aðalpósthúsinu í Reykjavík þar sem maður
hennar vann. Guðjón, minni en hún, þögulli, en bústnari og þéttari með
rómverskt nef, djúpsett bóndaaugu og járngráan sveip sem huldi enni
hans. Vingjarnlegi, auðmjúki Guðjón, hvernig tókst honum að biðla til