Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 40
40 TMM 2008 · 2
G r e t e C o x
hennar, giftast henni og barna hana? Einn son ól hún honum, blíðlynd-
an, fölan, fremur grannvaxinn, berklaveikan í æsku, með frábæra hæfi-
leika á sviði vísinda og fræða. Ég held hún hafi fengist við kennslu þegar
hún var ung, einhvers staðar í sveit á Íslandi þar sem fátt fólk var og
margar kindur. Þar hitti hún Guðjón og þau urðu hjón og fullkomnuðu
og skerptu hvort annað allt til dauða hans fyrir nokkrum árum.
Hún var rithöfundur, skáld, þýðandi, listamaður, ótamin. Hún kunni
sæg tungumála nógu vel til að tala nokkur þeirra og þýða ljóð og sögur
af þeim öllum á íslensku, hið forna víkingamál sem enn er talað næstum
eins og fyrir þúsund árum. Þýðingum hennar var útvarpað, stundum
með ginnandi rödd hennar sjálfrar, eða þær komu út á prenti. Á meðal
þessarar bókelsku þjóðar var hún besti stílistinn og sú sem hafði mesta
frásagnargáfu.
Hún saumaði út, orti ljóð í krosssaum, hárfín form og litbrigði, sköp-
uð af henni og saumuð með mjúkri íslenskri ull í púða og veggteppi.
Sálina setti hún í verkin svo allir gætu notið.
En hún gat ekki eldað. Í eldhúsinu var hún norn, trúði meir á galdra
og töfraþulur en matreiðslubækur og heilbrigða skynsemi. Nei, ég tek
þetta aftur … hún gat bakað pönnukökur, örþunnar og ljúffengar, born-
ar fram með sykruðum þeyttum rjóma og tei með sítrónusneiðum. En
pönnukökubakstur flokkaðist ekki undir eldamennsku heldur eldhús-
skáldskap. Prósinn var slæmur. Á hverjum morgni þreif hún kjötbita – í
huganum sé ég hann löðrandi í blóði og enn með ullinni á, en ég veit að
það var ekki þannig – og þeytti honum í pott fullan af vatni. Og síðan
hnefafylli af einu og eitthvað örlítið af öðru nema það væri á hinn veg-
inn, þannig að þetta gat allt eins orðið súpa eða kássa eða seytt gamalt
kjöt í bragðlausu eða alltof krydduðu vatni. Allt valt á skapi hennar og
hugarfari. Suma daga söng hún stuttar vísur eða hvíslaði blíð orð á
frönsku eða grísku. Aðra daga talaði hún þungbúin þýsku eða fór með
klausur úr Íslendingasögunum á hinu forna tungumáli sínu. Og það
komu stundir þegar ég var viss um að hún sagði: „Lenín, Engels og
Marx“ um leið og hún henti kjötinu í járnpottinn, vegna þess að skoð-
anir hennar voru á vinstri væng. Hún gaf í skyn að sál sín væri í Moskvu
en ég vissi alltaf að hún var í Reykjavík, sama hvað hún sagði.
Hún kynnti okkur fyrir vinum sínum, Þórbergi og konu hans,
Mömmugöggu. Hann er frægur rithöfundur, „besti rithöfundur okkar
fyrir utan Laxness,“ sagði hún. Þórbergur og Mammagagga voru einnig
vinstrisinnar og nýkomin úr ferðalagi til Rússlands þar sem þau voru
heiðursgestir. En þegar þau komu heim hafði draugur sest að í íbúð
þeirra. Þau sýndu okkur hornið þar sem hann stóð á hverri nóttu og