Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 43
TMM 2008 · 2 43
B r é f t i l M á l f r í ð a r
Við sátum við borðið langt fram eftir kvöldi meðan kertin brunnu.
Við höfum líklega talað um bókmenntir og ef til vill deilt um trúmál og
auðvitað slúðrað dálítið. Reykjavík var slúðurbær með ógrynni sagna í
Íslendingasagnastíl, sterkum og lifandi. Synd fyrirgafst varla og gleymd-
ist aldrei heldur lifði og lagðist með þunga á þá brotlegu áratugum og
jafnvel öldum saman, og vegna smæðar landsins, fólksfæðar, urðu sög-
urnar að þjóðsögum sem samófust öðrum sögum og urðu að veggtjöld-
um lífs og tíma, litríkum og geysistórum, sem eru enn að stækka, for-
tíðin jafnlifandi og nútíðin, hinir dauðu jafnraunverulegir og hinir lif-
andi, eins og á Íslandi deyi enginn algerlega.
Nokkrum dögum seinna kvöddumst við í öngþveitinu við bryggjuna,
nálægt landganginum. Það var grámyglulegur dagur og snjóflyksur í
lofti. Við Helga kysstum Guðjón á kinnina og hann roðnaði eins og
unglingspiltur og vöknaði um augu. Hann muldraði eitthvað um rokið
og strauk handleggnum yfir andlitið, en ég vissi betur. Augu mín voru
rauð og bólgin síðan um nóttina þegar ég hafði kvatt tónlistarmanninn,
ástina mína, og hjarta mitt var brostið.
Fleiri kvöddust og síðan faðmaði ég Málfríði. Eftir það sá ég hana
aldrei, og bréfin urðu viðkvæmur vefur milli okkar þar til nú að ég stend
með einn lausan þráð í hendi minni. Aldrei framar.
Í janúar þegar jólatréð hafði verið tekið niður beið ég eftir bréfum og
þau komu alltaf með litríkum frímerkjum og skjálfandi rithönd hennar
á umslaginu, skriftin líkust rúnum, nafn mitt og ólík heimilisföng þegar
ég flutti frá Danmörku til Englands og seinna til Kaliforníu.
Ég hef ekki geymt öll bréfin hennar, bara fáein, og þau án sýnilegrar
ástæðu. Ég virði þau nú fyrir mér, les þau og dáist að þeim, því ég sé í
dag að þrátt fyrir fjarlægð og aldursmun skrifuðum við hvor annarri
eins og jafningjar á grundvelli sem ég veit ekki hver er.
Bréf hennar eru eins og hún sjálf, ómöguleg að skilgreina, full þversagna,
skáldskapar og slúðurs, góðlátlegs gríns eða hnyttilegrar hæðni ef eitthvað
féll henni ekki í geð, eða öfugt, ef henni líkaði eitthvað mjög vel. Stundum
kát, stundum gleðisnauð og döpur, en einhvern veginn tókst henni alltaf að
setja hluta af Íslandi með í umslagið: hellirigningu, ofsafulla vinda, snjó-
fjúk, daufa sól eða drunur Atlantshafsins við fjarlæga, klettótta strönd. Öll
árin skrifaði hún um ellina, einmanalega tíma, hrörnun og vinamissi, en
jafnvel í vetrarmyrkrinu hafði hún til að bera birtu norðurljósanna.
„Það gleður mig að þú ert gift,“ skrifar hún árið 1963. „Ég óska þér til
hamingju, en hvers vegna Englendingi? Og verðurðu að búa í villta
vestrinu? Hví ekki brjáluðu íslensku skáldi eða að minnsta kosti efnileg-