Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 65
TMM 2008 · 2 65
F e r ð a r o l l a f r á M i ð j a r ð a r h a f s l ö n d u m
Að lokinni skoðunarferð um fyrirtækið settumst við inn hjá forstjór-
anum og ræddum við hann stundarkorn. Hann vildi endilega tala við
okkur um trúmál, einkum Martein Lúther. Hann sagði hrikalegar sögur
af Lúther, hvað hann hefði lifað syndsamlegu lífi enda hafi honum
hefnst fyrir það á sínu dánardægri því hann hafi dáið úr hægðatregðu
sem lauk með því að það rifnaði á honum vömbin og út vall saurinn.
Þessu trúði forstjórinn eins og nýju neti og skildi lítið í vinsældum Lúth-
ers á norðurslóðum. Ekki gátum við snúið honum til lúthersvillu enda
kannski áhuginn ekki ýkja mikill. Skemmtilegra fannst okkur að koma
inn í stórt herbergi inn af forstjóraherberginu. Þar gat að líta allar þær
tegundir af áfengi sem þeir höfðu framleitt og sagði forstjórinn okkur
að við mættum eiga eins mikið af víni og við gætum borið. Við létum
ekki segja okkur þetta tvisvar, fylltum alla vasa og röðuðum að síðustu
flöskum í buxnastrenginn auk þess sem við héldum á nokkrum flösk-
um. Við þökkuðum svo fyrir okkur og héldum heim á leið með allan
farminn. Í lestinni til Malaga var fyrir flokkur úr spænska hernum sem
hafði verið á heræfingum, óvopnaður en í einkennisbúningum með
dúskinn á húfunni. Þeir ráku upp mikil fagnaðaróp þegar þeir sáu
mennina með áfengið, allt frá léttvíni upp í sterkustu líkjöra. Við vorum
settir inn í miðjan hópinn, tappinn tekinn úr fyrstu flöskunni og ekki
hætt fyrr en allar flöskur höfðu verið tæmdar. Hermennirnir urðu
dauðadrukknir og hvert framhaldið varð á ferð þeirra vissum við ekki,
sáum þá síðast þegar við stigum af lestinni á brautarstöðinni í Malaga,
heldur rykugir í kollinum.
Ragnar og Jóhann Már höfðu farið til Marokkó gegnum Gíbraltar og
Tanger og hvöttu mig til að fara líka. Í hópinn slógust svo Finnarnir og
Svíinn. Fyrst ókum við til Gíbraltar á bíl sem Finnarnir áttu, þar var
hann skilinn eftir en við tókum ferju yfir til Tanger. Tanger var þá eins-
konar fríríki í umsjá Spánverja, Frakka og Þjóðverja og mannlífið harla
fjölskrúðugt. Á leiðinni hittum við tvær amerískar konur, önnur var
háöldruð en hin miðaldra og var sú yngri alltaf full en sú eldri passaði
upp á hana. Við hittum þær síðar á markaði og þá hafði verið stolið af
þeim öllum peningunum þeirra. Ekki vissi ég hvernig það ævintýri end-
aði en þær hafa sjálfsagt bjargað sér eins og Ameríkanar gera alltaf. Í
Tanger vorum við í nokkra daga og skoðuðum okkur um meðal annars
í arabísku hverfunum. Þar tók ég talsvert af myndum með lítilli mynda-
vél sem ég keypti og var hægt að fela í lófanum því aröbunum var illa við
að vera myndaðir.
Um þessar mundir átti Marokkókonungur afmæli og voru mikil
hátíðahöld í borginni. Allar konur klæddust kuflum og báru blæju. Þær