Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 67
TMM 2008 · 2 67
F e r ð a r o l l a f r á M i ð j a r ð a r h a f s l ö n d u m
á baskamáli Donostía og íbúarnir voru kallaðir donostíarar. Borgin var
fyrrum sumardvalarstaður yfirstéttanna meðan hitinn á hásléttunni var
óbærilegur. Þarna kælir sjórinn loftið og gola blæs af hafi. Í San Sebasti-
an var mikið af fallegum byggingum, einkum í gamla borgarhlutanum
en auk þess gat þar að líta vel hirtar baðstrendur.
Því næst hélt ég til Bilbao sem er mikil iðnaðar- og útgerðarborg.
Frægastir voru þeir fyrir skipasmíðar og málmvinnslu. Lýðveldissinn-
ar réðu Bilbao og nágrenni á lýðveldistímanum og þar var fríríki
Baska. Þeir höfðu sjálfstjórn í eigin málum á tímum lýðveldisstjórn-
arinnar en utanríkismál voru sameiginleg með lýðveldisstjórninni í
Madrid. Lengi var barist um Bilbao í borgarastyrjöldinni og mikið
blóðbað. Eftir styrjöldina var sjálfstæði baskahéraðanna að sjálfsögðu
afnumið. Bilbao var ekki eins falleg og San Sebastian, bar svip iðn-
aðarborga. Þarna báru allir baskahúfur. Atvinna virtist næg enda voru
í borginni stærstu hergagnaverksmiðjur Spánar. Í Bilbao gisti ég ekki
á pensíonati eins og venjulega heldur á gististað fyrir útigangsmenn.
Þar var hægt að fá dýnu og teppi fyrir næstum ekki neitt og það not-
færði ég mér. Engin voru sérherbergin heldur sváfu allir í stórum sal
og maður þurfti að gæta vel að eigum sínum til að vera ekki rændur.
Sambýlismenn mínir voru þó hinir vingjarnlegustu, forvitnir um land
og þjóð og spurðu margs og þótti gaman að tala við útlending sem gat
gert sig skiljanlegan á spænsku.
Frá Bilbao hélt ég að vesturmörkum Baskahéraðanna til Santander en
þar fyrir vestan er Astúrías. Santander er mjög falleg borg og þar eru
miklar baðstrendur. Þar er líka umtalsverð útgerð. Dálítill vogur skerst
inn í borgina og í hann fellur á sem skiptir borginni í tvennt. Úti á
öðrum tanganum er gamall viti. Fólkið var gerólíkt Suður-Spánverjum,
hægara og yfirvegaðra. Þótt komið væri að mánaðamótum mars-apríl
var veður enn napurt og rigndi mikið. Þarna voru stórir fiskmarkaðir
sem fólk sótti á. Þar var meðal annars selt mikið af krabbadýrum af
ýmsu tagi. Frá Santander hélt ég svo heim á leið til Madridar.
Nú var farið að vora og við farnir að hugsa okkur til hreyfings heim á
leið. Ragnar fór heim gegnum Þýskaland en við Jóhann Már lögðum
lykkju á leið okkar og fórum yfir til Frakklands og þaðan til Ítalíu. Á
leiðinni stoppuðum við stundarkorn á brautarstöðinni í Monakó en svo
vel vildi til að þetta var nóttina eftir brúðkaup þeirra Grace Kelly og
Rainiers fursta og var mikið um dýrðir, flugeldasýningar og annað í
þeim dúr.
Árla morguns daginn eftir komum við til Feneyja þar sem við skoð-
uðum okkur um í nokkra daga. Fyrstu nóttina sváfum við á eyju úti á