Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 72
72 TMM 2008 · 2
Bragi Þorgrímur Ólafsson
Deilur um lestur rómana
á Íslandi á síðari hluta 19. aldar
Prentun var í höndum kirkjunnar hér á landi fram eftir öldum og því
voru prentaðar bækur aðallega guðsorð eða opinberar lagatilskipanir.
Þetta breyttist með tilkomu Hrappseyjarprentsmiðju árið 1773, þá jókst
prentun á veraldlegu efni, einkum fræðsluefni. Þegar komið var undir
miðja 19. öld var prentað efni orðið fjölbreyttara hér á landi; innlendar
bækur, blöð og tímarit komu út og ýmsar tegundir bókmennta bárust
hingað, þar á meðal erlendir rómanar, sem fjölluðu oft um glæpi og
ástríður í stórborgum Evrópu eða Ameríku. Þessar sögur voru gjörólík-
ar því sem hið rótgróna íslenska sveitasamfélag átti að venjast og menn
fundu þessum bókmenntum margt til foráttu. Hér á eftir verður fjallað
stuttlega um viðtökurnar sem þessar bókmenntir fengu hér á landi á
síðari hluta 19. aldar og fram undir aldamótin 1900.
Forsagan – Hólar 1756
Fyrstu tilraunina til útgáfu þýddra rómana á Íslandi má rekja óvenju
langt aftur í tímann ef miðað er við íslenska prentsögu, eða allt til ársins
1756. Það ár kom út bók á Hólum í Hjaltadal sem bar titilinn Þess
svenska Gustav landskrons og þess engelska Bertholds fábreytilegir Rob
insons eður lífs og æfisögur. Í ritinu var að finna tvær sögur, Sagan af
þeim engelska og nafnfræga Berthold, og Lífs saga af Gustav. Báðar sög-
urnar höfðu fengið góðar viðtökur á meginlandi Evrópu þegar þær
komu út, en þar voru þær prentaðar margsinnis og þýddar á ýmis
tungumál.1 Ekki er ósennilegt að einhverjir Íslendingar hafi kynnst sög-
unum um Berthold og Gustav í Danmörku og flutt þær heim til Íslands,
því bent hefur verið á að sr. Þorsteinn Pétursson á Staðarbakka (1710–
1785) notaði Lífs sögu af Gustav sem fyrirmynd að sjálfsævisögu sinni.
Talið er að hvatamaður útgáfunnar, Björn Markússon (1716–1791), sem
var umsjónarmaður Hólastóls á árunum 1754–57, hafi einmitt kynnst