Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 73
TMM 2008 · 2 73
D e i l u r u m l e s t u r r ó m a n a
þessum sögum á námsárum sínum í Danmörku og hafi ráðist í þessa
útgáfu til að reyna að bæta fjárhag prentsmiðjunnar á Hólum. Áætlanir
Björns fóru þó út um þúfur, því bókin seldist illa, útgáfan var gagnrýnd
og margir töldu sögurnar brjóta í bága við hugmyndir um æskilega
hegðun og góða siði.
„Felsenborgarhneykslið“ 1854
Um eitt hundrað árum eftir bókaútgáfu Björns Markússonar, eða árið
1854, var gerð önnur tilraun til að gefa út þýdda reyfara á Íslandi. Það
ár gaf Grímur Laxdal bókbindari (1803–1866) út Felsenborgarsögur
eftir þýska skáldið Johann Gottfried Schnabel (1692–1752) í nýstofn-
aðri prentsmiðju á Akureyri.2 Felsenborgarsögur voru þá meira en
hundrað ára gamlar, en þær komu fyrst út í Þýskalandi á árunum
1731–43. Í sögunum er sagt frá ferðum nokkurra sjófarenda sem lentu
í ýmsum ævintýrum á ferðum sínum um suðurhöf. Útgáfa bókarinnar
vakti nokkra athygli og jafnframt nokkra hneykslun, enda er þar fjallað
um samlíf kynjanna á opinskárri hátt en áður hafði tíðkast í prentuðu
riti, og bar girnd og losta oft á góma í bókinni. Þetta þótti sumum les-
endum afar ósæmilegt. Einn þeirra skrifaði í Þjóðólf í byrjun desember
þetta ár, og segir að rit á borð við Felsenborgarsögurnar séu smekk-
lausar lygasögur sem henti best fyrir fáfróðan almúga í Danmörku og
Þýskalandi, og að íslenskir lesendur verðskuldi betra lesefni. Grein-
arhöfundur taldi jafnframt að útgefendur bókarinnar væru smámenni
sem vildu hafa landsmenn að féþúfu.3 Útgefandinn, Grímur Laxdal,
svaraði þessari gagnrýni í Norðra í mars 1855 og telur m.a. að sögurnar
séu ekki verri en ýmislegt annað sem hafi verið prentað hér á landi.4
Nokkrum mánuðum síðar birtist svo önnur grein í Þjóðólfi um Felsen-
borgarsögur þar sem því er beinlínis haldið fram að „fánýtari og verri
bók hafi aldrei komið út á Íslandi.“5 Greinarhöfundurinn benti á að
bókaútgefendur hafi töluverða ábyrgð að bera og þurfi að passa að
bækur þeirra spilli ekki hugsunarhætti almennings með því að ganga
gegn velsæmi og sómatilfinningu. Þannig mætti ekki „sleppa þeim
ritum út í almenning, sem drepið gæti niður eða meidt siðgæði og
sómatilfinningu“ og í raun væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir að
bækur sem spilltu góðum siðum myndu „breiðast út meðal almenn-
ings“. Höfundurinn taldi að Felsenborgarsögur væru af þessum toga og
bætti við: