Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Side 95
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
TMM 2008 · 2 95
voru tilnefnd eftirfarandi skáldrit: Brandarinn eftir Milan Kundera í þýðingu
Friðriks Rafnssonar (JPV), Loftskeytamaðurinn eftir Knut Hamsun, Jón Kal-
man Stefánsson þýðir (Uppheimar), Módelið eftir Lars Saabye Christensen,
Sigrún Kr. Magnúsdóttir þýðir (MM), og Skíðaferðin eftir Emmanuel Carrère,
þýðandi Sigurður Pálsson (JPV).
Mér telst lauslega til að um áttatíu skáldverk hafi komið út í íslenskri þýð-
ingu á síðasta ári og margir reyndir úrvalsþýðendur voru kallaðir til, auk
nokkurra nýliða sem lofa góðu. Í nefndinni sátu Árni Matthíasson, Fríða Björk
Ingvarsdóttir og sú sem hér skrifar, og þau urðu fljótlega sammála um tæplega
tuttugu bækur sem kæmu einkum til greina. Allar gerðu þær umtalsverðar
listrænar kröfur til þýðenda sinna en þó á ólíkan hátt, og næsta spurning var:
hvernig var þeim kröfum mætt? Því áttu nefndarmenn að reyna að svara, hver
fyrir sig, og búa síðan til lista yfir fimm toppbækur, eftir það kæmi í ljós hve
mikið bæri á milli. Fjórar bækur reyndust vera sameiginlegar á listunum, ein
enn var á tveim listum. Þá var ljóst að sú staka hlyti að verða útundan, en ég sé
ennþá eftir henni!
Það er merkileg reynsla að lesa í lotu tugi þýddra bóka, maður fær aðra til-
finningu fyrir heildinni en af að lesa eina og eina. Yfirleitt var þetta ánægjuleg
iðja; áleitin tilfinning varð þó oft að þýðendur hefðu flýtt sér helsti mikið og
ekki haft tíma til að láta þýðinguna liggja og lagerast. Þetta er eðlilegt í hraða
framleiðslunnar, samt ber alltaf að reyna að gefa texta tíma. Það sem einkum
næst við að koma aftur að þýddum texta eftir nokkurt hlé – og sleppa þá takinu
á frumtextanum – er að þýðandi kemur betur auga á óeðlileg tengsl við frum-
málið. Vicky Cribb sem þýðir úr íslensku á ensku sagðist á Bókmenntahátíð
hafa farið með síðustu þýðingu sína alla leið til Nýja Sjálands til að losna undan
íslenskum áhrifum – og skilið frumtextann eftir heima!
Nýjar þýðingar streyma út þessar vikurnar. Danska skáldævisagan Sá sem
blikkar er hræddur við dauðann eftir Knud Romer (þýð. Halla Sverrisdóttir,
MM) vakti úlfúð í heimalandi höfundarins þegar hún kom út vegna vægð-
arlausra lýsinga á söguumhverfinu. Í tilefni af Nóbelsverðlaunum Doris Less-
ing kom sú frábæra skáldsaga Dagbók góðrar grannkonu út aftur í fínni þýð-
ingu Þuríðar Baxter (JPV). Bjartur gefur út aðra skáldsögu DBC Pierre, Bjöguð
enska Lúdmílu (þýð. Árni Óskarsson), en fyrir þá fyrstu, Vernon God Little,
hlaut hann Booker-verðlaunin árið 2003.
Ein þeirra bóka sem hafa vakið verulega athygli og deilur erlendis und-
anfarna mánuði er nærri þúsund blaðsíðna skáldsaga Jonathans Littell, Les
Bienveillantes (Hinir velviljuðu, 2006). Littell er bandarískur Gyðingur en
alinn upp að hluta í Frakklandi og skrifaði bókina á frönsku. Hún hefur hlotið
tvenn helstu bókmenntaverðlaun Frakka, Prix Goncourt og skáldsagnaverð-
laun Frönsku akademíunnar. Hér er sögð saga útrýmingar Gyðinga í seinni
heimsstyrjöldinni frá sjónarhóli nasistaforingjans Maximiliens Aue, sem tekur
þátt í voðaverkunum af hugsjón. Hún kemur út á ensku í ár undir heitinu The
Kindly Ones.