Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Side 99
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
TMM 2008 · 2 99
Afmæli
Þegar er byrjað að halda upp á afmæli ársins. Hjalti Rögnvaldsson las allar
ljóðabækur Þorsteins frá Hamri upphátt í Iðnó í mars og apríl. Rithöfunda-
sambandið hafði samkomu til heiðurs Steini Steinarr á degi bókarinnar, 23.
apríl, á næstunni verður samkoma til heiðurs Sigfúsi Daðasyni og bók er
væntanleg til heiðurs Sigurði A. Magnússyni. Sérstök ástæða er til að nefna að
dagskrá til heiðurs Steini verður á menningarsetrinu Nýp á Skarðsströnd 26.
júlí. Þar munu ljóðskáldin Matthías Johannessen og Sigurbjörg Þrastardóttir
tala um skáldið.
Álfrún Gunnlaugsdóttir sem varð sjötug 18. mars sl. var ekki með á fljót-
færnislegum lista yfir merkisafmæli rithöfunda í síðasta hefti. Til að bæta úr
því langar mig að minna hér á fróðlegt viðtal sem Dagný Kristjánsdóttir átti
við Álfrúnu og birti í þessu tímariti fyrir 14 árum (TMM 1/1994). Þar segir
Álfrún lítillega frá uppvexti sínum í Reykjavík en rækilegar frá námsárunum
á Spáni á stjórnartíma Francos. Eins og Sigurður Pálsson var hún lengi erlend-
is, síðustu þrjú árin í Sviss þar sem hún hvorki heyrði né talaði íslensku, enda
varð heimkoman henni erfið:
Ég hélt að þjóðernið og tungumálið væru einfaldlega þáttur af mér sjálfri, eitthvað
sem ekki breyttist. Ég hélt að maður gæti fengið vitneskju um það sem gerst hafði
á meðan maður var í burtu, en það var ekki hægt. Maður fékk svo sem að vita hvað
hafði gerst en ekki hvernig það hefði gerst. Það síðastnefnda getur verið jafn mik-
ilvægt og hitt, en sú vitneskja fæst aðeins með því að vera þátttakandi.
Það var sjálfsblekking að einhver fastur kjarni haldist óbreyttur, líka í málinu. Það
fer nefnilega fram eins konar seinni máltaka á óhlutstæðum orðum upp úr tvítugu og
fagmál með sínum sérstaka orðaforða verður til dæmis nánast nýtt mál. […] Ég byrjaði
þó tiltölulega fljótt aftur að hugsa á íslensku, en mér fannst ég ekki alveg örugg. Þess
vegna settist ég niður og þýddi Sálumessu yfir spænskum sveitamanni eftir Ramón J.
Sender, bara til að setja málin tvö niður hlið við hlið, sameina þau og aðskilja um leið,
með því að yfirfæra merkingu af einu yfir á hitt. Sú þýðing kom ekki út fyrr en löngu
seinna, en þetta var mér persónulega mikil hjálp.
Í framhaldinu tala þær stöllur um skáldverk Álfrúnar og fræðistörf, trú, ást og
starf hennar í Háskóla Íslands, og mætti taka margar forvitnilegar tilvitnanir í
viðbót úr spjallinu þótt það verði ekki gert hér. Álfrúnu er óskað innilega til
hamingju með afmælið.
Talandi um afmæli þá rámar Sigurð Pálsson í vísu eftir Stein Steinar þar sem
rue Delambre rímar á móti femme de chambre en man ekki meira. Kann ein-
hver lesandi vísuna? Í framhaldi af því má hugsa sér að safna saman lausavís-
um Steins sem ýmsir kunna ennþá en hafa ekki birst í bók. Ef vel aflast má svo
birta vísurnar í hausthefti TMM. Látið orðið ganga og sendið vísur á silja.
adal@simnet.is svo safnið verði orðið myndarlegt í haust.