Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 101
TMM 2008 · 2 101
M y n d l i s t
tíma. Út frá þessu sjónarhorni má segja að tungumál titilsins tengi þær saman
og gefi vísbendingu um undirliggjandi samevrópskan bakgrunn án þess þó að
það geti verið aðalatriðið. Það hlýtur að vera inntak og merking hugtaksins
streymið sem við rekumst á við innganginn í safnið.
Ekki er gott að segja hvaða hugrenningatengsl „streymið“ vekur hjá
almennum sýningargesti en vatn kemur vissulega upp í hugann og hugmyndir
um rennsli eða flæði. Orðið „la durée“ á frönsku má hins vegar tengja við tím-
ann án þess að þurfa að nota orðasambönd á borð við „tímans straum“. Hið
heimspekilega hugtak „streymið“ sem hvergi er skýrt fyrir sýningargestum
nema í sýningarskrá, er í stuttu máli notað um tíma sem líður, ekki síst í vit-
undinni. Með því að skilgreina tímann sem líður eða „líðandina“ sem streymi
vildi Bergson sýna fram á að til væri annar tími en hinn mælanlegi tími vís-
indanna. Þennan tíma kallaði hann „la durée“.
Ef streymið er hreyfing stundar sem líður hjá getum við sagt að það hafi
þann ótuktarlega eiginleika að „koma aldrei til baka“. Streymið er því óstöðugt
og illhöndlanlegt fyrirbæri, sem hverfur jafnharðan og það birtist. Við getum
skynjað hreyfingu þess en getum ekki afmarkað hana eða stöðvað – nema
okkur takist að mæla hana og skrá. En með skráningu er streymið ekki lengur
flæði hreyfingar heldur ummerki og þar með föst stærð eða rúm. Streymið
virðist því hafa þann eiginleika að hætta að vera streymi þegar gerð er tilraun
til að afmarka það og breyta í ástand. Þá hljótum við að spyrja hvernig streym-
ið, sem ekki er hægt að mæla án þess að það breytist í rúm, geti mögulega birst
okkur í myndlist sem hefur lengst af verið talin list rýmis fremur en tíma. Er
ekki þverstæða að ætla sér að líta á myndlist sem birtingarmynd streymisins?
Hreyfimyndin
Halldór Björn bendir á í grein sinni um Streymið í ágætri sýningarskrá, að erf-
itt sé að halda utan um tímaskynið nema með því að vera sífellt að horfa á
klukkuna, en ef við gerðum það myndum við fyrirgera möguleikanum á að
taka virkan þátt í lífinu. Sá sem er alltaf að fylgjast með hreyfingu vísanna á
úrinu sínu hefur ekki tíma til að gera neitt annað. Ef við lítum af klukkunni og
látum okkur berast með flæði tímans gerist nokkuð sem er andstæða þess sem
á sér stað þegar við reynum að fylgjast með tímanum: við gleymum honum.
Streyminu má því líkja við óstöðvandi flæði vitundarinnar og lífsins enda er
hugtakið á vissan hátt tilraun til að ná utan um lífið sjálft.
Kannski má segja að maðurinn sé alltaf að leita leiða til að komast að
streyminu og ná utan um það. Ein leiðin til þess er að kalla fram myndir minn-
inga en tryggara telst að skrá og „festa“ framrásina með þeim hætti að hægt sé
að endurtaka hana sem hreyfingu. Hreyfimyndir á borð við kvikmyndir og
myndbönd eru skráningartæki sem haga sér líkt og flæði vitundarinnar því
þau gera okkur kleift að endurlifa atburði og endurtaka samfellt rennsli tím-
ans. Við afspilun myndbands þar sem hver myndin rekur aðra má skapa þá
blekkingu að við séum að upplifa streymið og því mætti halda að myndbönd