Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 110
110 TMM 2008 · 2
B ók m e n n t i r
Soffía Auður Birgisdóttir
Íslensk bókmenntasaga á ensku
A History of Icelandic Literature. Vol. 5 of Histories of Scandinavian Literature.
Ritstjóri Daisy Neijmann. Lincoln & London: Unversity of Nebraska Press í
samvinnu við The American Scandinavian Foundation 2006, 730 bls.
I
Árið 2006 kom út vegleg íslensk bókmenntasaga á ensku undir ritstjórn kan-
adíska bókmenntafræðingsins Daisy Neijmann. Daisy er mörgum Íslending-
um að góðu kunn, hún var búsett á Íslandi í nokkur ár, hefur rannsakað
íslenskar bókmenntir og varði doktorsritgerð sína The Icelandic Voice in
Canadian Letters við Vrije háskólann í Amsterdam árið 1994. Hún gegnir nú
stöðu við University College í London, sem kennd er við Halldór Laxness, og
kennir þar íslenskt mál og bókmenntir. Eins og ritstjórinn gerir grein fyrir í
formála er tilurðarsaga bókarinnar löng og ströng, verkið var hafið fyrir
fjöldamörgum árum, undir annarri ritstjórn, síðan lá vinna við það niðri árum
saman þar til Daisy Neijmann tók við því og tókst að koma því í höfn. Hún á
mikinn heiður skilinn fyrir það. En í þessu langa ferli felst líka aðalveikleiki
bókarinnar; það er greinilegt að nokkrir kaflanna eru skrifaðir fyrir mörgum
árum og hafa ekki verið „uppfærðir“ á fullnægjandi hátt. Þannig byggist
óhjákvæmilega ákveðin skekkja inn í verkið þegar umfjöllunin færist nær
útgáfutímanum, eins og rætt verður aðeins hér á eftir. Í inngangi verksins er
ekki njörvað niður nákvæmlega til hvaða árs umfjöllunin á að ná, en takmark-
ið virðist þó hafa verið að fjalla um íslenskar bókmenntir fram að aldamót-
unum 2000 eins og til dæmis kemur fram í kaflaheiti sjötta og tíunda kafla. Á
þessu er þó nokkur misbrestur í öðrum köflum þar sem umfjöllunin nær
greinilega ekki svo langt. Ritstjórnarstefnan gefur höfundum verksins færi á
ólíkum nálgunarleiðum, sem er kostur, allir voru þeir þó hvattir til að skoða
bókmenntirnar í ljósi bæði samfélagslegra og hugmyndafræðilegra þátta eins
og venja er í slíkum ritum. Nokkur munur er á því hversu mikið höfundar
kjósa að vefa bókmenntafræðilega umræðu inn í umfjöllun sína en margir
hefðu að mínu mati mátt gera meira af því til að gera yfirlit sitt fjörlegra og
hugsanlega meira ögrandi. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við að höfundar eigi að
leitast við að skreyta texta sinn „teoríutorfi“ en sjálfsagt er að gera þá kröfu að
þeir stefni saman ólíkum sjónarmiðum í greiningu sinni og geti helstu hug-