Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Side 112
B ó k m e n n t i r
112 TMM 2008 · 2
hún allstóran hluta verksins úr íslensku á ensku og hefur reynst ritstjóranum
mikilvæg stoð, eins og fram kemur í formála. Aðrir þýðendur þýða einstaka
kafla og sumir höfundanna frumsemja texta sína á ensku en Gunnþórunn á
langstærstan hlut að þeim hluta verksins sem er þýddur.
III
Um íslenskar miðaldabókmenntir hafa komið út margar bækur á ensku enda
eru rannsóknir á þeim stundaðar um allan heim og hefur svo verið lengi, eins
og má sjá af heimilda- og tilvísanaskrá aftast í ritinu. Hverjum kafla bókarinn-
ar fylgir slík skrá og er sú sem tengist fyrsta kaflanum lang ítarlegust, á fjór-
tándu síðu. Yfirlit Vésteins Ólasonar um íslenska kvæðahefð er ítarlegt og
skýrt og afar hefðbundið, t.d. mætti finna að því að hann ræðir ekki nýjar og
umdeildar túlkanir á einstökum kvæðum, eins og t.a.m. túlkun Svövu Jakobs-
dóttur á Gunnlaðarþætti Hávamála sem liggur til grundvallar Gunnlaðar sögu
hennar og mörgum þykir merkilegt framlag til fræðasviðsins. Sverrir Tóm-
asson gerir sagnahefðinni skil í síðari hluta fyrsta kaflans og ræðir ólíkar
bókmenntagreinar og einstök verk innan þeirra og leggur áherslu á að í stefnu-
móti – sem og átökum á milli – hinnar innlendu munnlegu hefðar og lærðrar
orðræðu hinnar menntuðu yfirstéttar hafi orðið til einstök innlend sagnahefð
sem ól af sér bókmenntaleg meistaraverk.
Margrét Eggertsdóttir, Þórir Óskarsson, Guðni Elísson og Jón Yngvi
Jóhannsson gefa yfirlit yfir bókmenntalandslagið frá síðaskiptum 1550 og
fram undir miðja tuttugustu öld. Öll rekja þau þróun bókmenntanna, bæði
lauss og bundins máls, í tímaröð og tengja samfélagshræringum og bók-
menntalegum hugmyndastraumum. Tímalínan er einnig viðmið Árna Ibsen
og Hávars Sigurjónssonar sem gefa gagnort yfirlit yfir íslenska leikritun og
Eysteins Þorvaldssonar sem fjallar um ljóðlistina eftir 1940. Ástráður Eysteins-
son og Úlfhildur Dagsdóttir, sem fjalla um sagnaskáldskapinn frá 1940 til
2000, fara aðra leið sem lukkast afar vel. Í stað þess að leggja áherslu á línulega
tímanálgun fjalla þau um sagnaskáldskapinn út frá ákveðnum þemum og/eða
viðfangsefnum. Ástráður skrifar um tímabilið 1940–1980 og ræðir bókmennta-
landslagið t.a.m. út frá þjóðernisstefnu sem fylgdi í kjölfar hernámsáranna; út
frá yfirburðastöðu Halldórs Laxness og út frá þýðingum á skáldskap úr erlend-
um málum. Þá leggur hann áherslu á þemu sem tengjast fólksflutningum og
borgarmyndun. Hann ræðir sérstaklega ævisögur, sjálfsævisögur og sögulegar
skáldsögur, en þessar bókmenntagreinar hafa sterka stöðu hjá íslenskum les-
endum þótt umfjöllun um þær í bókmenntasögum hafi verið af afar skornum
skammti. Um síðari hluta tímabilsins, 1980–2000, fjalla þau Ástráður og Úlf-
hildur í sameiningu og nálgast viðfangsefnið enn á þematískan hátt. Hér er
fjallað um nýja bylgju í þýðingum, um innkomu sterkra kvenpersóna í nútíma-
bókmenntirnar, um karlmennskukreppu, um bernskusögur, um örsögur og
fantasíur, um nýjar birtingarmyndir af borginni í skáldsögum yngri höfunda,
svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er ákaflega skemmtileg nálgun á bókmenntirnar að
mínu mati og veldur því til dæmis að tengdir eru saman höfundar þótt þeir