Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Qupperneq 115
B ó k m e n n t i r
TMM 2008 · 2 115
Böðvar Guðmundsson
Heklað úr ull og ást
Gerður Kristný: Höggstaður. Mál og menning 2007.
Ljóðið er eitthvert innhverfasta listform sem til er, það að lesa ljóð og njóta þess
er kannski meira í ætt við innhverfa íhugun en eiginlega listnautn. Til að ljóð
fái notið sín þarf viðtakandi þess að hafa næma tilfinningu og þroskaða vits-
muni og umfram allt tíma. Sá tími er því miður ekki öllum gefinn á þessari öld
gönuhlaupanna. Og ljóð verður ekki til úr engu, ljóðlistin er jafngömul mann-
skepnunni, hún á sér langar rætur hefðar og vana. Á þeim rúmum ellefu
hundruð árum sem liðin eru síðan fyrst var kveðið á Íslandi hefur íslenskt ljóð-
mál eðlilega aukist og þróast, en þó hefur sjálft myndmálið ekki tekið viðlíka
breytingum og bragformin. Þar er hefðin enn ríkjandi þó skáld ráði eðlilega
misvel við nýgervingar og myndhvörf. Því verka róttækar nýjungar í ljóðlist oft
illa á ljóðavini. Tilraun ljóðskálda til að brjótast undan oki hefðarinnar og
hafna þeim gildum sem ríkja getur þó á stundum heppnast og leitt til nýrrar
sýnar og nýrrar tjáningar, en oftar en ekki enda slíkar tilraunir í hjáróma ópi
sem líður um hól og dal og gleymist loks með öllu.
Eitt þeirra skálda sem hvað best ræður við hefðbundið myndmál á Íslandi í
dag er Gerður Kristný. Það kom strax í ljós í fyrstu ljóðabók hennar, Ísfrétt
(1994) og enn betur í næstu ljóðabók, Launkofi (2000). Nú hefur Gerður
Kristný sent frá sér þriðju ljóðabók sína, Höggstaður (2007) og ég leyfi mér að
fullyrða að með henni hefur hún skipað sér í röð íslenskra öndvegisskálda.
Í Höggstað eru 35 ljóð sem fjalla auðvitað um aðskiljanleg efni, en í þeim má
þó greina ákveðnar meginlínur eða umfjöllunarefni, þótt það sé almennt talið
út í hött á dögum póstmódernismans, þar sem hverjum er leyft að lesa það sem
hann vill úr annarra textum, að segja að listaverk eigi sér aðeins eina túlkun og
hana sé hægt að negla niður. Gamaldags ljóðalesari, eins og sá sem þetta skrif-
ar, mundi þó fljótlega sjá fjóra þætti, eða fjögur þemu, sem verða tilefni flestra
ljóðanna.
Þar verður fyrst fyrir ættjörðin eða landið. Fyrsta ljóð bókarinnar heitir
einmitt Ættjarðarljóð en er þó ærið ólíkt hinu hefðbundna ættjarðarljóði róm-
antísku skáldanna sem lofuðu Ísland fyrir gæði sín og lýstu yfir ást sinni á
hraunum og jöklum. Ættjörð Gerðar Kristnýjar er ekki lofuð fyrir gæði, hún
er köld og hún klæðir „í híði úr kvíða.“ Samt er ljóðmælandi bundinn sínu
landi, engu síður en Steingrímur Thorsteinson sem forðum kvað:
Svo traust við Ísland mig tengja bönd
að trúrri ei getur barns við móður.