Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 116
B ó k m e n n t i r
116 TMM 2008 · 2
En böndin eru önnur: „Ísinn sleppir engum,“ og landið sem hjá Jónasi varð
„farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir“ bindur ljóðmælandann við sig
óslítandi böndum, það er áfram hvítt af hrími en það er ekki farsældafrón:
Landið mitt
útbreidd banasæng
nafn mitt saumað
í hélað ver
Fegurð landsins er skammt undan þótt hún geti verið kaldranaleg, í kvæðinu
Norður er lýst vetrarakstri á heiðavegi þar sem vegarstikurnar vísa leið gegn-
um
… sortann
sem er hvítur
hér á heiðinni
Lýsingin á ferð á íslenskri heiði um vetur, þar sem bíllinn þokast milli stik-
anna, hægt eins og búrhveli, skírskotar um leið til annarrar ferðar, þar sem oft
sér ekki til vegarins og einstöku stikur lýsa vegfarandanum þar sem hann silast
frá vöggu til grafar
eins og eldspýtur
litlu stúlkunnar í ævintýrinu
En litla stúlkan í ævintýri H. C. Andersens varð úti á jólakvöldið og sá við
bjarmann frá eldspýtunum sem hún átti að selja inn í annan og betri heim.
Mynd landsins í vetrarklæðum, hin „hrímhvíta móðir“, er skáldinu hug-
leikin og hvergi er vetrarmyndin eins skýr og í kvæðinu Við vatnið sem er í
senn lýsing á „skammlífri“ fegurð vetrarmorgunsins og skírskotun til skamm-
lífra gleðistunda lífsins, líkt og stikurnar sem vísa veginn. Það hefur ekki alltaf
þótt góður siður að nota lýsingarorð í skrifum um bókmenntir en ég leyfi mér
samt að benda á þetta kvæði sem einstakan lítinn dýrgrip þar sem saman fer
skáldleg sýn og meistaraleg tök á formi og myndmáli:
Hvítir fyrir hærum
skríða hamrarnir
út úr nóttinni
Grátt fyrir járnum
ryður frostið veginn
Skammlíf birta
skreytir himin
Gul fyrir genginni stund