Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 121
B ó k m e n n t i r
TMM 2008 · 2 121
hugmynd um heimildir höfundar: ritverk Þórbergs og einkanlega dagbækur
hans og ýmis handrit sem varðveitt eru á Landsbókasafni. Meðal þeirra er
Stóra handritið svokallað, drög að merkilegri sjálfsævisögu sem hefði átt að
gefa út í heild fyrir löngu síðan. Bréf Þórbergs og annarra bregða ljósi á líf hans,
ekki síst hið afar forvitnilega bréf Kristínar Guðmundsdóttur til Sigurðar
Nordals sem frumbirt var loksins í heild í síðasta hefti Tímaritsins. Sum
æskuskrif Þórbergs getur að líta í fyrrnefndum útgáfum Helga M. Sigurðsson-
ar, en langflestar þessara heimilda eru óútgefnar. Það sem hér vekur athygli er
að allar þær heimildir sem Pétur virðist hafa stuðst við fram að þessu hefur
Halldór Guðmundsson líka haft til skoðunar. Úrvinnslan er hins vegar mjög
ólík. Aðferð Halldórs er hins alvitra höfundar sem leiðir persónuna og atburði
sem henni tengjast fram á sjónarsviðið, útleggur og alhæfir. Þetta ræðst auðvit-
að af því að hann er að leiða saman tvö ólík skáld, Þórberg og Gunnar Gunn-
arsson, og rekja saman þræði í ólíkum lífsferlum þessara tveggja bændasona og
jafnaldra.
Pétur fer öðru vísi að. Hann tekur sér stöðu álengdar, í útjaðri sögusviðsins,
leiðir heimildirnar fram, lætur þær ráða ferðinni, veltir þeim fyrir sér og dreg-
ur varfærnar og hnyttnar ályktanir. Þórbergur var samviskusamur dagbók-
arritari, en í dagbókunum er lítið greint frá hræringum sálarlífsins. Í færslum
hans eru alltaf nákvæmar veðurlýsingar, síðan er stiklað á einstökum athöfn-
um dagsins, hvað hann las, hvert leið hans lá, hvern hann hitti, með nákvæm-
um tímasetningum fyrir gestakomur og heimsóknir. Texti Péturs felur í sér
sífellt samtal, við heimildirnar og við lesandann, og inn á milli bregður hann
upp myndum og frásögnum þar sem söguhetjan er lifandi komin. Hann býr
jafnvel til litla leikþætti, einkum til að láta rödd Sólrúnar heyrast þar sem bréf
hennar eru ekki varðveitt, aðeins bréf Þórbergs. Þessi aðferð er ekki á allra færi,
en henni er beitt af næmleika og skáldlegu innsæi.
Sambandið við Sólu er einn af meginþráðunum í frásögn þessarar bókar.
Fram kemur að hún hefur skipað stóran sess í lífi Þórbergs enda þótt hann hafi
síðar reynt að skafa burt nafn hennar úr dagbókum sínum. Þeirri sögu er
engan veginn lokið, og verður forvitnilegt að sjá hvernig Pétur fylgir henni
eftir í síðara bindinu. Pétur stefnir Þórbergi á nokkrum stöðum saman við
annan dagbókarritara frá sama tíma, verkamanninn Þorgeir Guðjónsson, sem
gefur sýn frá annarri hlið inn í baslið í Reykjavík og ákveðna hugmynd um það
líf sem hefði blasað við Þórbergi ef hann hefði gift sig á þessum tíma og þurft
að sjá fyrir konu og börnum.
Pétur gefur lesanda hlutdeild í hugsjónum og áhugamálum sem altaka
þennan unga sérvitring og lestrarhest, og hann gæðir nöfnin sem nefnd eru í
dagbókinni lífi, meðal annars samfélagið sem kallaði sig Mjólkurfélag heilagra
og Þórbergur umgekkst um langa hríð, einkum það merkilega fólk Hallbjörn
Halldórsson og Kristínu í Hollywood. Unuhús og Halldór Kiljan Laxness eru
líka skammt undan, og ekki gleymist heldur að hér er verið að lýsa skáldi á
auðugasta mótunarskeiði sínu.
Af þeim heimildum sem bæði Pétur og Halldór Guðmundsson styðjast við