Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 123
B ó k m e n n t i r
TMM 2008 · 2 123
Þórbergi er skapi næst að snúa við. En verður þá litið á dúandi lendar Margrétar í
takt við fótaburð hestsins. (213)
Margrét, kona Þórbergs, er nýkomin til sögunnar þegar þessu fyrsta bindi
lýkur. Menn hafa gert sér misjafnar hugmyndir um hana, eins og sjá má í fyrr-
nefndu bréfi Kristínar Guðmundsdóttur sem var í gömlum vinahópi Þórbergs,
þar sem Margrét átti ekki inngöngu, og getur varla talist óhlutdræg. Á hinn
bóginn höfum við mynd Einars Braga í Þönkum um Þórberg. Þar lýsir hann
Margréti sem laglegri og lífmikilli konu sem hafi verið hrifin og stolt af Þór-
bergi og átt mikinn metnað fyrir hans hönd. Hér eru miklar mótsagnir að taka
afstöðu til og mikil saga enn óskrifuð.
ÞÞ í fátæktarlandi er ævisaga, og inn í hana fléttast hugsunarsaga Þórbergs
og hvernig hann nær smám saman þeim listatökum á stíl í ljóðum og lausu
máli sem hann þróar á þessum árum. Þetta rekur Pétur upp úr verkunum
sjálfum og frumheimildum sem þeim tengjast. Bókin er því enginn vettvangur
til að velta fyrir sér mismunandi kenningum sem bókmenntafræðingar kunna
að hafa um ritverk Þórbergs. Og enda þótt hér sé margt skáldlega spunnið er
lesandinn sannarlega margs vísari eftir en áður um meistara Þórberg. Síðara
bindisins, ÞÞ í eymdarlandi (?), verður beðið með eftirvæntingu.
Dagný Kristjánsdóttir
Kannski á ófreskjan líka börn
Þórarinn Leifsson: Leyndarmálið hans pabba. Mál og menning 2007.
Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson olli undarlega litlu fjaðrafoki
á bókamarkaðnum um síðustu jól. Samt er leyndarmál pabba ekki neitt venju-
legt vandamál. Á meðan mamma er símasölumaður sem lítur sjaldan upp úr
tölvunni og á meðan börnin tvö eru í skólanum finnur pabbi fólk og étur það.
Pabbi er nefnilega mannæta.
Barnabók Þórarins Leifssonar fjallar bæði um ystu mörk menningar okkar
og innsta kjarna hennar. Bönnin við sifjaspellum og mannáti eru hvorki meira
né minna en hornsteinar siðmenningarinnar og mannlegs samfélags. Það er
kannski þess vegna sem einmitt þessi bönn hafa verið tekin til umræðu beint
og óbeint í klassískum sögum og ævintýrum, og sagnfræðingurinn Marina
Warner hefur sagt að ef grannt sé að gáð feli mestur hluti bæði goðsagna og
ævintýra, beint og óbeint, í sér einhvers konar viðvörun gegn þessu tvennu, þ.
e. sifjaspellum og mannáti. Hún segir líka: „Mörgum kynni að finnast lítill
yndisauki í hinu gróteska sem býður upp á skopstælingar og groddaskap, sjúk-